
Þegar núgildandi loðnukvóti lá fyrir var því spáð að vertíðin gæti skilað ríflega tíu milljarða króna gjaldeyristekjum. Reyndin virðist ætla að verða gott betur en það.
„Ég giska á að þetta sé svona 25 milljarða vertíð,“ sagði Gunnþór í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 úr Neskaupstað.
„Ég held að við hefðum ekki getað trúað því fyrir einhverjum misserum síðan að ná þessum verðmætum út úr loðnunni eins og við erum að gera núna.“
-Er þetta bara eins og lottóvinningur fyrir þjóðarbúið?
„Já, ég held að þetta sé bara nokkuð stór lottóvinningur fyrir þjóðarbúið og okkur öll,“ svarar Gunnþór.

Í fréttum Stöðvar 2 voru einnig sýndar myndir frá hrognavinnslu Síldarvinnslunnar, sem er langverðmætasta afurðin og tekinn púlsinn á stemmningunni meðal starfsfólksins.
„Konan segir að ég verði eins og lítið barn þegar loðnan er að koma. Þetta er svona spenningur. Þetta er ólýsanlegt. Bæði út á sjó og í landi, þá er þetta eitthvað sem er bara erfitt að lýsa. Þetta er bara spenna. Þetta er ofboðslega skemmtilegt,“ segir Jón Már Jónsson, yfirmaður landvinnslu hjá SVN.
Meira í frétt Stöðvar 2: