Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi Arons í liðinu en hann er fyrirliði liðsins ásamt því að leika með spænska risanum, Barcelona.
Aron hefur skorað 576 mörk í 148 landsleikjum og hefur einungis misst af einu stórmóti síðan hann hóf feril sinn með landsliðinu.
„Eftir læknisskoðun hjá læknum landsliðsins er það ljóst að Aron verður ekki leikfær nú í janúar,“ segir í tilkynningu frá HSÍ en ekki hefur verið kallað á annan mann í stað Arons.
Fyrir ekki svo löngu sagði Gunnar Magnússon, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins, að óvíst væri hvort að Aron gæti leikið í leikjunum í undankeppni EM og HM í Egyptalandi í janúar.
Aron lék þó í síðustu viku með Barcelona í Final 4 úrslitakeppninni í Meistaradeildinni í handbolta og jukust þá vonir Íslendinga að hann yrði klár í slaginn í janúar.
Svo verður ekki en HSÍ staðfesti, eins og áður segir, rétt í þessu að Aron verði ekki með liðinu í leikjunum í janúar.
Íslenska landsliðið leikur tvo leiki gegn Portúgal í undankeppni EM áður en liðið heldur svo til Egyptalands þar sem þeir eru einmitt í riðli með Portúgal, Alsír og Marokkó.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Ein breyting hefur orðið á landsliðshóp Íslands fyrir leikina gegn Portúgal og HM í Egyptalandi. Aron Pálmarsson,...
Posted by HSÍ - Handknattleikssamband Íslands on Laugardagur, 2. janúar 2021