ÍR hefur hætt við að leggja kvennalið félagsins í handbolta niður. Í síðasta mánuði var greint frá því að ÍR myndi draga kvennalið sitt úr keppni og ekki taka þátt í Grill 66 deildinni á næsta tímabili vegna fjárhagsvandræða handknattleiksdeildar félagsins.
ÍR-ingum hefur nú snúist hugur og meistaraflokkur kvenna verður áfram starfræktur. Finnbogi Grétar Sigurbjörnsson hefur verið ráðinn þjálfari ÍR.
Þá hefur verið komið á nýju meistaraflokksráði kvenna hjá ÍR undir stjórn Matthíasar Imsland. Í fréttatilkynningu frá ÍR kemur fram að mikill kraftur hafi vaknað í Breiðholti eftir að fréttirnar um að kvennaliðið yrði lagt niður bárust. Fjöldi fólks hefur ákveðið að hjálpa til og leggja sín lóð á vogarskálarnar.
„Ætlunin er að byggja upp meistarflokk á þeim ungu og efnilegum leikmönnum sem félagið hefur yfir að ráða. Ég tel að þessir leikmenn verði góðar fyrirmyndir annarra iðkenda félagsins í umhverfi sem ég vonast til að verð eftirsóknarvert að spila í. Ég hlakka mjög til tímabilsins,“ segir Margrét Valdimarsdóttir, leikmaður ÍR, í yfirlýsingunni.
Ákvörðunin um að leggja kvennalið ÍR niður mæltist ekki vel fyrir og leikmenn voru afar ósáttir að vera ekki hafðir með í ráðum þegar það var ákveðið.
ÍR endaði í 6. sæti Grill 66 deildar kvenna á síðasta tímabili.
Fréttatilkynning ÍR
Meistaraflokkur kvenna hjá ÍR í endurreistur
Tekin hefur verið ákvörðun um að endurreisa meistaraflokk kvenna hjá ÍR í handbolta en til stóð að leggja flokkinn niður í síðasta mánuði. Finnbogi Grétar Sigurbjörnsson, fyrrum landsliðsþjálfari, mun taka við liðinu. Ljóst er að mikill kraftur hefur vaknað í Breiðholti eftir að tilkynnt var um að leggja ætti flokkinn niður og fjöldi fólks lýst sig reiðubúið til að aðstoða við endurreisn kvennastarfsins. Komið hefur verið á nýju meistaraflokksráði kvenna undir forystu Matthíasar Imsland þar sem tugir einstaklinga hafa tekið að sér mismunandi verkefni. „Ætlunin er að byggja upp meistarflokk á þeim ungu og efnilegum leikmönnum sem félagið hefur yfir að ráða. Ég tel að þessir leikmenn verði góðar fyrirmyndir annarra iðkenda félagsins í umhverfi sem ég vonast til að verð eftirsóknarvert að spila í. Ég hlakka mjög til tímabilsins,“ segir Margrét Valdimarsdóttir leikmaður ÍR.