Giuliani, sem er 76 ára, hefur verið í fararbroddi baráttu Trumps fyrir því að snúa við niðurstöðum forsetakosninganna fyrir mánuði. Ekki kemur fram í tísti Trump hvenær Giuliani greindist eða hvort hann væri með einkenni.
„Rudy Giuliani, langbesti borgarstjóri New York fyrr og síðar, og sá sem hefur verið óþreytandi í baráttunni að koma upp um langspilltustu kosningar í sögu Bandaríkjanna hefur greinst með Kína-vírusinn,“ segir Trump og notaði umdeilt orð yfir kórónuvírusinn.
„Góðan bata Rudy, við höldum baráttunni áfram.“
Færslu Trump má sjá að neðan.
.@RudyGiuliani, by far the greatest mayor in the history of NYC, and who has been working tirelessly exposing the most corrupt election (by far!) in the history of the USA, has tested positive for the China Virus. Get better soon Rudy, we will carry on!!!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) December 6, 2020
Trump greindist sjálfur með Covid-19 í október og dvaldi í þrjá daga á sjúkrahúsi í nágrenni Washington DC.
Að minnsta kosti fjörutíu manns í nærumhverfi Trump hafa greinst með Covid-19 síðan í lok september. Þeirra á meðal Melania Trump forsetafrú, sonur hennar Barron, Donald Trump yngri auk ráðgjafa og repúblikana.
Samkvæmt Johns Hopkins sjúkrahúsinu greindust tæplega 214 þúsund smitaðir vestanhafs í gær. 2254 létu lífið í gær í Bandaríkjunum af völdum Covid-19. Alls hafa rúmlega 280 þúsund manns vestan hafs látist og 14,6 milljónir smitast.