Repúblikanar og demókratar í fjölmennustu sýslu Michigan-ríkis náðu samkomulagi um að staðfesta úrslit forsetakosninganna þar nánast í sömu andrá og Donald Trump, fráfarandi forseti, fagnaði því að úrslitin yrðu ekki staðfest. Með samkomulaginu dregur enn úr möguleikum Trump á að tefja fyrir að Joe Biden verði staðfestur sigurvegari kosninganna.
Frestur fyrir atkvæðatalningarnefnd til að staðfesta úrslit kosninganna í Wayne-sýslu í Michigan, sem stórborgin Detroit tilheyrir, rann út í gær. Joe Biden, frambjóðandi demókrata, fékk flest atkvæði í Michigan og munar hátt í 150.000 atkvæðum á honum og Trump þar. Trump forseti og aðrir repúblikanar hafa haldið því fram að stórfelld kosningasvik hafi átt sér stað án þess að leggja fram sannanir fyrir því.
Fyrst þegar fjögurra manna nefndin í Wayne-sýslu greiddi atkvæði greiddu tveir fulltrúar Repúblikanaflokksins gegn því að staðfesta úrslitin. Monica Palmer, formaður nefndarinnar úr röðum repúblikana, vísaði til þess að hún hefði ekki trú á því að talningin þar hefði verið nákvæm, að sögn Washington Post.
Trump og bandamenn hans fögnuðu þráteflinu á samfélagsmiðlum. Kayleigh McEnany, blaðafulltrúi Hvíta hússins og talskona framboðs Trump, sagði að nefndin hefði neitað því að staðfesta úrslitin. Trump sjálfur tísti síðan ranglega um að allt Michigan-ríki hefði neitað að staðfesta úrslitin.
„Að hafa hugrekki er fallegur hlutur. Bandaríkin eru stolt!“ tísti forsetinn.
Wow! Michigan just refused to certify the election results! Having courage is a beautiful thing. The USA stands proud!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) November 18, 2020
Jenna Ellis, lögfræðilegur ráðgjafi framboðs forsetans, lýsti stöðunni í Wayne-sýslu sem meiriháttar sigri fyrir Trump. Kæmist kjörstjórn ríkisins heldur ekki að niðurstöðu áður en kjörmannaráðið sem kýs næsta forseta kemur saman í desember gætu repúblikanar á ríkisþingi Michigan valið kjörmenn ríkisins.
Náðu málamiðlun um að staðfesta úrslitin
Adam var þó ekki lengi í paradís því skömmu síðar náðu fulltrúar demókrata og repúblikana í talningarnefndinni saman um að staðfesta úrslit kosninganna. Að kröfu repúblikana samþykkti nefndin að óska eftir því að innanríkisráðherra Michigan léti fara fram ítarlega úttekt á talningu atkvæða í ríkinu.
Jocelyn Benson, innanríkisráðherrann, fagnaði samkomulaginu í gær og fullyrti að engar vísbendingar væru um víðtækt svindl í kosningunum í Michigan. Aðeins hafi einangruð og minniháttar mistök verið gerð í talningunni.
Framboð Trump rekur nú enn mál vegna kosningaúrslitanna í nokkrum ríkum, þar á meðal Pennsylvaníu og Nevada, og krefst þess að úrslit kosninganna verði ekki staðfest þar. Nær útilokað er talið að þau mál hafi nokkur áhrif á endanleg úrslit forsetakosninganna. Trump forseti hefur engu að síður neitað að viðurkenna ósigur og að veita Biden aðgang að ríkisstofnunum og leyniþjónustuupplýsingum sem verðandi forsetar hafa fengið.
Pattstaðan sem kom fyrst upp í nefndinni sem staðfestir kosningaúrslitin vakti mikla reiði demókrata og kosningasérfræðinga, að sögn AP-fréttastofunnar. Slík staðfesting er alla jafna aðeins formsatriði eftir kosningar. Repúblikanar voru sakaðir um að reyna að koma í veg fyrir úrslit lýðræðislegra kosninga og að reyna að svipta fjölda íbúa ríkisins atkvæðarétti sínum.
„Við reiðum okkur á lýðræðislegar hefðir, þar á meðal að sá sem tapar sætti sig við ósigur á virðulegan hátt. Því virðist vera að hnigna,“ segir Joshua Douglas, lagaprófessor við Kentucky-háskóla við AP.