Donald Trump Bandaríkjaforseti gaf í skyn á kosningafundi með stuðningsmönnum sínum í Flórída að hann hygðist reka Anthony Fauci, helsta sóttvarnasérfræðing Bandaríkjastjórnar. Hann muni þó bíða með það að reka hann þar til eftir forsetakosningarnar sem fram fara á morgun.
Trump var í miðri ræðu þar sem hann ræddi um bóluefni og hæddist nokkuð af þjóðfélagsumræðunni um kórónuveirufaraldurinn þegar stuðningsmenn hans hófu að hvetja hann til að reka Fauci.
„Þú kveikir á fréttunum og það eina sem þau tala um er covid, covid, covid. Við viljum tala um covid og síðan næsta mál. 4. nóvember munuð þið ekki heyra svo mikið um það,“ sagði Trump þegar stuðningsmenn byrjaði að hrópa í kór. „Rektu Fauci, rektru Fauci, rektu Fauci,“ heyrðist fjöldinn kalla og forsetinn svaraði.
„Ekki segja neinum en leyfið mér að bíða með það þangað til aðeins eftir kosningarnar. Ég kann að meta þetta ráð. Hann hefur haft rangt fyrir sér. Hann er góður maður en hann hefur haft rangt fyrir sér,“ sagði Trump.
Anthony Fauci hefur gegnt embætti forstöðumanns ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna í yfir þrjátíu ár. Hann hefur verið gagnrýninn á það hvernig Trump hefur tekið á kórónuveirufaraldrinum í Bandaríkjunum.
Crowds chant "Fire Fauci" at a Trump campaign rally in Florida, with the president quipping "let me wait until a little bit after the election" https://t.co/Kgh4FcTkIn pic.twitter.com/mYJvnO1y1w
— Bloomberg (@business) November 2, 2020