Donald Trump Bandaríkjaforseti og Joe Biden, mótframbjóðandi hans og fyrrverandi varaforseti, mætast í öðrum og síðustu kappræðum þeirra fyrir forsetakosningarnar vestanhafs klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma. Það er til mikils að vinna í kappræðunum en Trump þarf að sækja töluvert á, miðað við kannanir.
Biden hefur varið síðustu dögum í að undirbúa sig fyrir kappræðurnar en Trump hefur varið undanförnum dögum í að halda fjölmarga kosningafundi með stuðningsmönnum sínum.
Fylgi frambjóðendanna hefur verið mjög stöðugt um langt skeið en Biden hefur þó vaxið ásmegin og þykir líklegri til að vinna kosningarnar. Trump hefur átt í vandræðum og má þar benda á smit hans af Covid-19 og fjármuni en framboð hans hefur þurft að hætta sjónvarpsauglýsingum í mikilvægum ríkjum vegna fjárskorts.
Blaðamenn AP fréttaveitunnar segja ráðgjafa Trumps óttast að hann tapi Hvíta húsinu og Repúblikanar tapi meirihluta í öldungadeild Bandaríkjaþings. Hafa þeir sérstaklega hvatt forsetann til að draga úr ákefð sinni, sem hann sýndi í fyrstu kappræðunum. Trump gat þó ekki lofað því.
Þá er fastlega búið við því að Trump muni beita verulega persónulegum árásum gegn Biden og telur varaforsetinn fyrrverandi því vera ætlað að beina athyglinni frá hinum ýmsu vandamálum sem Bandaríkjamenn eiga við að etja þessa dagana.
Fylgjast má með kappræðunum í spilarnum hér að neðan og hér á Youtube. Neðst í fréttinni er svo textalýsing Vísis um kappræðurnar.
Kappræðurnar fara fram í Nashville í Tennessee og hefðu átt að vera númer þrjú í röðinni. Einum viðburðanna þurfti þó að fresta í kjölfar þess að Bandaríkjaforseti smitaðist af Covid-19. Kappræðurnar áttu að fara fram rafrænt en Trump harðneitaði að taka þátt í þeim.
Forsvarsmenn kappræðanna hafa tilkynnt að slökkt verði á hljóðnemum frambjóðenda þegar hinn frambjóðandinn er að flytja tveggja mínútna upphafsávarp sitt þegar ný málefni eru tekin fyrir.
Sjá einnig: Framíköll, óreiða og deilur einkenndu kappræðurnar
Þau málefni sem fréttamaður NBC og stjórnandi kappræðnanna, Kristen Welker, mun ræða við þá Trump og Biden eru bandarískar fjölskyldur, kynþættir í Bandaríkjunum, loftslagsbreytingar, þjóðaröryggi og leiðtogahæfni.