Skoðun

Við eigum sam­leið

Guðmundur Andri Thorsson skrifar

Ég skrapp niður í Ráðhúsið um daginn og skoðaði Borgarlínu-sýninguna sem þar er. Mæli með henni, falleg og skemmtileg og einhver kraftur og hugsjónagleði yfir henni sem hrífur mann. Borgarlínan er samleið. Hún snýst um forgang samleiðarinnar.

Hún er augljóslega eitthvert mikilvægasta hagsmunamál okkar sem búum í úthverfum og nágrannabyggðum Reykjavíkur en sækjum inn í borgina vinnu og þjónustu, og verður mikill léttir að vera laus við geðvonskulegar raðir að liðast löturhægt eftir Kringlumýrarbrautinni og Miklubrautinni.

Vistvænni samgöngumáti mun hjálpa okkur Íslendingum við að standa við skuldbindingar okkar í loftslagsmálum, og mun ekki af veita því þar erum við eiginlega með allt niðrum okkur.

Borgarlínan er eina raunhæfa viðbragðið við því að íbúum mun fjölga um 70.000 manns á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2040 – ekki raunveruleg lausn fyrir það fólk að búa til nýjar og stærri og flóknari umferðarslaufur.

Og síðast en ekki síst er Borgarlínan í anda þess sem tíðkast í öllum borgum; naumast til svo aum og vesæl borg í veröldinni að þar séu ekki einhvers konar almenningssamgöngur. Allt er jákvætt við þessa uppbyggingu sem öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ætla að standa að saman.

Á leiðinni út stóð ég mig að því að raula með sjálfum mér frasann úr gamla Spilverkslaginu: „Reykjavík, hvað ætlar þú að verða, þegar þú ert orðin stór ...“ Og hugsaði um leið: Borg. Og borg er samfélag þar sem meðal annars er boðið upp á góðar almenningssamgöngur.

Síst af öllu vil ég lasta það að vera sérvitur og fara eigin leiðir í lífinu – en stundum þurfum við líka að vinna saman, öllum til hagsbóta en engum til skaða.

Við eigum samleið og hún heitir Borgarlína.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×