Í upplýsingum frá lögreglu kemur fram að ekki sé fjölgun á lyfjatengdum andlátum miðað við í fyrra. Árið 2018 voru 39 lyfjatengd andlát og kemur þetta fram í dánarmeinaskrá.
Valgerður Á. Rúnarsdóttir, forstjóri SÁÁ, segir aukna vitundarvakningu um skaðsemi lyfjanna hljóti að hafa áhrif. Þó greinist fleiri einstaklingar með fíkn í sterk verkjalyf en áður.
Á árunum 2001-2015 létust að meðaltali 15 einstaklingar undir fertugu á ári vegna ofneyslu á lyfseðilsskyldum lyfjum en það hafi aukist gríðarlega árið 2016 en þá létust 27 manns og árið 2017 létust 25. Árið 2018 létust 33 og flestir voru á aldrinum 30-65 ára.
Valgerður segir umræðu í öllu þjóðfélaginu nauðsynlega og aðgerðir frá heilbrigðisráðuneytinu breyta miklu. Aðgerðir heilbrigðisráðuneytisins fólust meðal annars í breytingum sem voru gerðar í lyfjaafgreiðslu og reglum tengdum því. Læknar hafi tekið þetta til sín og breytt lyfjaútskriftum.
„Það sem við merkjum augljóslega aukningu er aukning í ópíóðafíkn, við greinum miklu fleiri með það núna og setjum jafnframt fleiri á þessa lyfjameðferð eða viðhaldsmeðferð við ópíóðafíkn. Þetta er það sem við höfum séð aukast síðustu þrjú árin,“ segir Valgerður.
„Örugg og skilvirk leið til að takast á við daglega verki“
Ópíóðafíkn hefur aukist gríðarlega á vesturlöndum undanfarin 20 ár, en ópíóðalyfið OxyContin var sett á markað af lyfjafyrirtækinu Purdue Pharma árið 1996 og hefur það verið umdeilt. Purdue, ásamt fleiri lyfjafyrirtækjum, markaðssetti ópíóðalyf með þeim skilaboðum að það væri ekki ávanabindandi. Annað hefur síðan komið í ljós.Lyfjafyrirtækin Purdue Pharma, Teva Pharmaceuticals og Johnson & Johnson eru meðal þeirra fyrirtækja sem verið er að herja á með ákærum í bandarískum dómstólum þessi misseri. Meðal annars hafa þau heyjað mál í Oklahoma fylki þar sem þau hafa verið sökuð um að gefa ópíóðafaraldrinum svokallaða byr undir báða vængi, notað rangar upplýsingar við markaðssetningu verkjalyfjanna og hafa lagt lítið upp úr hættu á fíkn.
Sjá einnig: Ópíóðar stærsta heilbrigðisógn í sögu ríkisins
Sjá einnig: Ópíóðaframleiðandi greiðir 10,5 milljarða í sáttagreiðslur til að sleppa við dómssalinn
Johnson & Johnson markaðsetti ópíóðalyf undir formerkjunum „örugg og skilvirk leið til að takast á við daglega verki.“
Purdue og Teva borguðu bæði sáttagjöld en Johnson & Johnson stendur nú í málaferlum. Purdue greiddi alls 33,5 milljarða íslenskra króna og Teva 10,5 milljarða. Féð mun vera notað í verkefni sem mun reyna að takast á við ópíóðafaraldurinn í fylkinu.
Þetta mál er eitt 2.000 mála sem verið er að heyja gegn lyfjafyrirtækjum vegna ópíóðalyfja í Bandaríkjunum.
Á hverjum degi deyja að meðaltali 130 bandarískir einstaklingar vegna ofskammts af ópíóðalyfjum samkvæmt tölum Centers for Disease Control and Prevention.
Árið 2017 dóu 70.200 einstaklingar af ofskammti og höfðu 68% þeirra tekið inn ópíóðalyf og bæði eru dæmi um að þau hafi verið tekin út með lyfseðli og þau hafi verið keypt ólöglega.