Erlent

Evrópubúar segjast ekki hafa fengið að kjósa á Bretlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, við kjörstað í morgun. Svo virðist sem að evrópskum borgurum hafi verið vísað frá víða á Bretlandi.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, við kjörstað í morgun. Svo virðist sem að evrópskum borgurum hafi verið vísað frá víða á Bretlandi. Vísir/EPA
Fjöldi frásagna hefur komið fram um að borgarar evrópskra ríkja sem eru búsettir á Bretlandi hafi ekki fengið að greiða atkvæði í Evrópuþingskosningunum sem hófust í dag. Svo virðist sem að stjórnsýslulegum mistökum sveitarstjórna sé um að kenna.

The Guardian segir að fjöldi Evrópubúa hafi mætt á kjörstaði í dag en verið vísað frá af starfsmönnum kjörstjórna sem sögðu þá ekki hafa atkvæðisrétt á Bretlandi. Margir þeirra segi að eyðublöð um að þeir ætluðu sér að greiða atkvæði á Bretlandi sem sveitarstjórnir áttu að senda þeim hafi annað hvort borist of seint eða alls ekki.

Sumir þeirra sem var vísað frá segja að nöfn þeirra hafi verið á kjörskrá en að strikað hafi verið yfir þau. Aðrir segjast hafa skilað eyðublöðum í tæka tíð en að starfsmenn kjörstjórnar hafi ekki stimplað þau fyrr en eftir að frestur til að skila þeim rann út.

„Það er óásættanlegt að þessi ríkisstjórn og starfsmenn kjörstjórnar hafi mismunað evrópskum borgurum. Það verður ekki þaggað niður í mér og það verður ekki þaggað niður í evrópskum borgurum,“ segir Moritz Valero, þýskur borgari sem ætlaði að greiða atkvæði í London í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×