Erlent

Útlit fyrir erfiða leit að nýjum starfsmannastjóra

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Carolyn Kaster
Svo virðist sem það verði ekki auðvelt fyrir Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, að ráða nýjan starfsmannastjóra í Hvíta húsið. John Kelly, núverandi starfsmannastjóri mun hætta um áramótin en samband hans og Trump hefur versnað gífurlega frá því hann tók við stöðunni. Þó nokkrir aðilar eru nú til skoðunar en nokkrir hafa þegar gefið í skyn að þeir vilji hana ekki.

Undanfarnar vikur og jafnvel mánuði hefur Trump átt í viðræðum við Nick Ayers, starfsmannastjóra Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna. Sá vildi hins vegar ekki starfa sem starfsmannastjóri Trump lengur en til vors og vildi mikil völd með starfinu, samkvæmt heimildum Politico. Trump vill starfsmannastjóra til minnst tveggja ára.

John Kelly er hér lengst til vinstri. Við hlið hans standa þau Ivanka Trump og Jared Kushner en þau tvö voru helstu stuðningsmenn þess að Nick Ayer (til hægri) tæki við Kelly.Getty/Jabin Botsford
Ayers tilkynnti ákvörðun sína í gærkvöldi og virðist sem hún hafi komið flestum á óvart. Fjölmiðlar ytra hafa eftir heimildarmönnum sínum innan Hvíta hússins að þeir hefðu talið nánast öruggt að Ayers myndi taka við. Fyrst eftir að Trump tilkynnti að Kelly myndi hætta um áramótin sagði hann að staðgengill hershöfðingjans fyrrverandi yrði opinberaður á næstu tveimur dögum. Það hefur nú breyst og stendur til að opinbera viðkomandi aðila fyrir áramót.

AP fréttaveitan segir nokkra koma til greina í huga Trump. Meðal þeirra eru Mick Mulvaney, sem hefur verið yfir fjárlagagerð ríkisstjórnar Trump, þingmaðurinn Mark Meadows, Steve Mnuchin, fjármálaráðherra, Robert Lighthizer, samningamaður Bandaríkjanna vegna milliríkjaviðskipta, og jafnvel Mattew Whitaker, starfandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, og David Bossi, aðstoðarframkvæmdastjóri framboðs Trump.



Sjá einnig: Nýr dómsmálaráðherra Trump var stjórnarmeðlimur í fyrirtæki sem svindlaði á fólki



Þar af hafa þó nokkrir strax látið koma fram að þeir hafi ekki áhuga á starfinu. Mnuchin og Lighthizer hafa báðir sagst ánægðir í sínum stöðum. Samkvæmt heimildum AP hefur Mulvaney ekki áhuga á stöðu starfsmannastjóra Hvíta hússins. Hann er sagður hafa lýst yfir áhuga á því að taka við fjármálaráðuneytinu.

Starfsmannavelta Hvíta hússins hefur verið einstaklega mikil síðan Trump tók við embætti og eru deilur algengar á milli háttsettra starfsmanna Hvíta hússins. Það hefur reynst Trump erfitt að ráða vana embættismenn og ekki bætir úr skák að næstu tvö ár verða að öllum líkindum erfið í Hvíta húsinu. Bæði þarf að huga að endurkjöri Trump og í senn að eiga við komandi rannsóknir fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sem stjórnað verður af Demókrötum.

Næsti starfsmannastjóri Trump verður sá þriðji frá því hann tók við embætti þann 20. janúar 2016.


Tengdar fréttir

Bræði og óreiða í Hvíta húsinu

Síðustu dagar í Hvíta húsinu hafa einkennst af mikilli bræði Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og óreiðu en von er á miklum sviptingum meðal starfsmanna forsetans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×