Erlent

Brexit-ráðherra segir af sér

Samúel Karl Ólason skrifar
Dominic Raab yfirgefur Downingstræti 10.
Dominic Raab yfirgefur Downingstræti 10. EPA/ANDY RAIN
Dominic Raab, Brexit-ráðherra Bretlands, hefur sagt af sér vegna samningsdraga sem eru nú til umræðu. Hann segir samvisku sína ekki leyfa sér að styðja drögin og nefnir fyrir því tvær ástæður. Raab segir samningsdrögin, eins og þau snúa að Norður-Írlandi, í raun ógna samheldni konungsveldisins. Hin ástæðan var sú að það væri óásættanlegt að Evrópusambandið hefði neitunarvald um það hvort Bretar gætu í raun slitið sig að fullu frá sambandinu.

Þar að auki sagði Raab í yfirlýsingu sinni að hann gæti ekki séð að skilyrði draganna standist þau loforð sem ríkisstjórnin gaf bresku þjóðinni.

Raab birti bréfið sem hann sendi Theresu May, forsætisráðherra á Twitter um skömmu fyrir níu í morgun.

May tilkynnti í gær að hún hefði tryggt sér stuðning ráðherra ríkisstjórnar sinnar, eftir fimm klukkustunda ráðherrafund. Fjölmiðlar í Bretlandi segja þó nokkra ráðherra hafa mótmælt samningsdrögunum harðlega og einhverjir þingmenn Íhaldsflokksins eru sagðir íhuga að leggja fram vantrauststillögu gegn henni.

Raab er tuttugasti ráðherrann sem segir af sér á undanförnum tveimur árum. Talið er að afsögn hans muni leiða til fleiri afsagna í ríkisstjórn May.

Owen Smith, þingmaður Verkamannaflokksins, segir afsögn Raab segja allt sem segja þurfi um drögin. Raab hafi tekið þátt í samningsviðræðunum og hjálpað við að kynna drögin öðrum ráðherrum. Hann kallaði eftir því að May boðaði til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit.

Esther McVey, lágt settur ráðherra í ríkisstjórninni, hefur einnig sagt af sér. Í bréfi hennar til May sagði hún mikilvægt að tryggja að farið yrði eftir vilja þjóðarinnar og slíta tengsl Bretlands við ESB. Hún sagði þau samningsdrög sem nú eru til umræðu ekki gera það.


Tengdar fréttir

Ærið verkefni hjá Theresu May

Breska ríkisstjórnin samþykkti í gær drög að samningi vegna Brexit. Theresa May ræðir samninginn í þinginu í dag. Erfitt verður að koma málinu í gegnum þingið. Stefnt á leiðtoga­ráðsfund 25. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×