Ocasio-Cortez, sem starfaði á veitingastað fyrir ári síðan til að sjá fyrir fjölskyldu sinni, vann sigur á Repúblikananum Anthony Pappas.
Ocasio-Cortez kom öllum á óvart þegar hún hafði betur gegn fulltrúadeildarþingmanninum Joe Crowley í forvali Demókrataflokksins í júní. Crowley hafði setið á þingi frá árinu 1999 og var af mörgum talinn líklegur arftaki Nancy Pelosi sem leiðtogi Demókrata í þingdeildinni. Hann hafði ekki fengið mótframboð innan flokksins í sínu umdæmi síðan 2004.
Starfaði fyrir Bernie Sanders
Hún hafði áður starfað að forsetaframboði Bernie Sanders og fyrir fyrrverandi öldungadeildarþingmanninn Ted Kennedy, sem lést árið 2009. Þá starfaði hún um tíma sem fræðslustjóri hjá bandarískri stofnun sem sinnir málefnum fólks af rómönskum ættum (National Hispanic Institute).Ocasio-Cortez þykir mjög vinstrisinnuð á bandarískan mælikvarða þar sem hún hefur meðal annars talað fyrir gjaldfrjálsu háskólanámi og heilsugæslu, að skotvopnalöggjöf landsins verði hert til muna og að rekstri einkarekinna fangelsa verði hætt.