Erlent

Íhuga rannsókn á meintum skattsvikum Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Manuel Balce Ceneta
Starfsmenn skatteftirlits New York eru að íhuga að hefja opinbera rannsókn á meintum skattsvikum Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, á árum áður. Verið er að skoða rannsókn New York Times þar sem því er haldið fram að Trump og faðir hans hafi beitt ýmsum ráðum til að koma rúmum 413 milljónum dala úr sjóðum Fred til sonarins, án þess að greiða rétta skatta.

Í frétt NYT segir að nokkur af þeim ráðum séu hrein og bein skattsvik.

Sjá einnig: Gögn benda til „klárra“ skattsvika Donalds Trump



Talsmaður áðurnefndar stofnunnar segir að málið sé til skoðunar og verið sé að meta mögulegar rannsóknir.

Þingmenn Demókrataflokksins hafa kallað á nýjan leik eftir því að Trump opinberi skattaskýrslur sínar, sem hann hefur staðfastlega neitað að gera, þvert á fordæmi forvera sinna. Washington Post hefur eftir þingmanninum Richard J. Durbin að hann hefði ávalt vitað að það væri góð ástæða fyrir því að Trump hefði ekki birt skattaskýrslur sínar.



Nái Demókratar stjórn á fulltrúadeild þingsins í nóvember, eins og útlit er fyrir, gætu þeir tekið fjármál forsetans fyrir í rannsókn þingnefndar.

„Við verðum að sjá skattaskýrslur Trump og komast að því hve djúpt glæpir hans ná,“ sagði Bill Pascrell.

Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu í gær segir að Ríkisskattstjóri Bandaríkjanna hefði fyrir löngu síðan gefið grænt ljós á „viðskiptin“ sem NYT fjallaði um og að fréttin gefi ekki rétta mynd af raunveruleikanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×