Næsta skref er að allir öldungadeildarþingmenn kjósa um tilnefninguna. Repúblikanar ætla sér að reyna að klára ferlið á þriðjudaginn næsta, þrátt fyrir að tveir þingmenn Repúblikanaflokksins séu óákveðnir. Þar að auki eru þrír þingmenn Demókrataflokksins einnig óákveðnir.
Repúblikanar eru með nauman meirihluta á þinginu. 51-49.
Dómsmálanefndin mun kjósa í kvöld og til stendur að halda atkvæðagreiðslu á öldungaþinginu á morgun. Kavanaugh gæti svo verið staðfestur í embætti á þriðjudaginn, eftir aðra atkvæðagreiðslu á þinginu.
Grátbáðu Flake að skipta um skoðun
Í yfirlýsingu sagði Flake að nefndarfundur gærdagsins þar sem bæði Kavanaugh og Christine Blasey Ford, sem segir hann hafa reynt að nauðga sér þegar þau voru í menntaskóla, báru vitni, hefði ekki hjálpað honum við að taka ákvörðun.
„Það sem ég veit er að réttarkerfi okkar byggir á því að aðilar eru taldir saklausir, sé ekki hægt að sanna að þeir séu sekir,“ sagði Flake.
Skömmu eftir að hann sendi frá sér tilkynninguna var Flake á leið á fund nefndarinnar þegar tvær konur gáfu sig á tal við hann. Þær voru báðar grátandi og báðu hann um að skipta um skoðun.
„Á mánudaginn stóð ég fyrir utan skrifstofu þína,“ sagði Ana Maria Archila, önnur kvennanna. „Ég sagði frá kynferðisárás sem ég varð fyrir. Ég sagði frá henni af því að ég tel Ford vera að segja sannleikann. Það sem þú ert að gera er að leyfa aðila sem hefur brotið gegn konu að sitja í Hæstarétti.“
Hin konan sagði: „Það var brotið á mér og enginn trúði mér. Ég sagði engum, og þú ert að segja öllum konum að þær skipti ekki máli, að þær eigi bara að þegja því ef þær segir þér frá því sem þær urðu fyrir munt þú hunsa þær.
Þetta er það sem kom fyrir mig og þú ert að segja öllum konum Bandaríkjanna að þær skipti ekki máli.“
Hún bað Flake um að horfa í augun á sér og segja sér að það sem hún fór í gegnum skipti ekki máli.
Myndband af atvikinu má sjá hér að neðan.
“Look at me when I'm talking to you. You're telling me that my assault doesn't matter!": Protesters confront Sen. Jeff Flake moments after he announces he will vote to confirm Brett Kavanaugh. https://t.co/Cc5y9kura1 pic.twitter.com/qqvz3jx8JF
— CNN (@CNN) September 28, 2018