Skoðun

Lýðræðislegar lausnir á húsnæðisvandanum

Katla Hólm Þórhildardóttir skrifar
Nýverið var námskeið á vegum Íbúðalánasjóðs um hvernig mætti stofna leigufélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni (e. non-profit). Jafnframt hvatti sjóðurinn góðgerðarfélög til að stofna slík félög. Nýleg lög um almennar íbúðir ættu að auðvelda stofnun slíkra félaga, með stofnframlögum frá ríki og sveitarfélögum, og er markmiðið að auka húsnæði á leigumarkaði fyrir lágtekjufólk.

Slíku framtaki ber að fagna, enda liggur húsnæðiskreppan þungt á lágtekjufólki. Efnahagslegur ójöfnuður er tilfinnanlegur á Íslandi, og hefur alvarleg áhrif á lýðræði landsins. Ekki skal furða að fólk sem stendur í ströngu allt árið um kring við að tryggja sér þak yfir höfuðið, og aðrar lífsnauðsynjar, er með hugann við aðra hluti heldur en lýðræðisleg málefni og möguleika þeirra. Einnig eru leigjendur oft og tíðum jaðarsettir hópar sem gerir þá enn valdaminni en marga aðra.

Lýðræðislegar stofnanir njóta lítils trausts, en valdefling og aukin aðkoma almennings að ákvarðanatöku kann að bæta úr því. Undanfarin misseri hafa verið háværar raddir um aðgerðaleysi stjórnvalda vegna hækkandi húsnæðisverðs, sem og reiði vegna stórra leigufélaga sem hafa tekið yfir leigumarkaðinn og halda fólki í gíslingu um húsnæði með okurleigu og öfgafullum kröfum. Leigjendur eru valdalausir, og nú er mál að linni.

Alda, félag um lýðræði og sjálfbærni, hefur lengi talað fyrir lýðræðislegum fyrirtækjum og hefur stutt við þingmál þess efnis. Lýðræðisleg fyrirtæki valdefla starfsfólk og væri fagnaðarefni ef fjölgun yrði á lýðræðislega reknum leigufélögum. Slík félög hljóta að starfa með hagsmuni leigjenda að leiðarljósi.

Aukin aðkoma almennings

Lög um almennar íbúðir segja raunar til um að skipa skal fulltrúaráð í húsnæðissjálfseignarstofnunum. Fulltrúaráðin skulu að hluta til skipuð leigjendum, en það gefur það til kynna að leigjendur slíkra félaga eigi að hafa rödd í ákvarðanatökum. Því miður eru lögin gloppótt og tryggja ekki nægilega aðhald, aðkomu og stjórn leigjenda yfir húsnæðissjálfseignarstofnunum. Þar koma til ýmsar undanþágur sem vert er að endurskoða til að tryggja að rödd leigjenda fái ekki bara að heyrast heldur sé ráðandi.

Það eru umtalsverð og margvísleg tækifæri í sjálfseignarstofnunum um húsnæði: tækifæri til að hlusta á leigjendur, tækifæri til valdeflingar og tækifæri til að takast á við húsnæðiskreppuna. En til að nýta þessi tækifæri er mikilvægt að virkja lýðræðislega ferla innan leigufélaga. Aukin aðkoma almennings getur átt hlut í að leysa húsnæðisvandann, og þannig dregið úr ójöfnuði og aukið lífsgæði. Aukin lífsgæði auk valdeflingar almennings mun leiða til öflugra lýðræðis og dýpri borgaravitundar og eru lýðræðisleg leigufélög vissulega ein leið til að ná þessu markmiði.

Höfundur er ráðgjafi hjá Öldu, félagi um sjálfbærni og lýðræði




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×