Handbolti

Sömu og dæmdu í sigrinum á Svíum en fyrst dæma Ís­lendingar

Sindri Sverrisson skrifar
Jónas Elíasson verður í Boxen í dag. Þar var hann einnig þegar hann dæmdi leik Þýskalands og Noregs í milliriðli I.
Jónas Elíasson verður í Boxen í dag. Þar var hann einnig þegar hann dæmdi leik Þýskalands og Noregs í milliriðli I. Getty/Sina Schuldt

Þó að Íslendingar verði í miklum minnihluta á meðal áhorfenda í Boxen í dag þá verður svo sannarlega mikið af íslenskum þátttakendum í leikjum dagsins.

Þannig verður til að mynda íslenskt dómarapar á ferðinni í Boxen í dag á Evrópumótinu í handbolta. Hins vegar fær norskt par það verkefni að dæma leik Íslands og Danmerkur í kvöld.

Dagskráin í Boxen hefst á leik um 5. sæti mótsins, á milli Portúgals og Svíþjóðar en þessi lið enduðu í 3. sæti í sínum milliriðlum. Það verða þeir Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson sem dæma leikinn sem að þessu sinni snýst aðeins um 5. sætið en er stundum leikur um HM-farseðil. Bæði lið eru nú þegar örugg um HM-farseðilinn.

Slóvenarnir Bojan Lah og David Sok dæma svo slag Þýskalands og Króatíu, sem hefst klukkan 16:45 að íslenskum tíma, þar sem þjálfararnir Dagur Sigurðsson og Alfreð Gíslason mætast.

Klukkan 19:30 hefst leikur Íslands og Danmerkur og þar verður norræna þemað fullkomnað með norsku dómarapari, þeim Lars Jørum og Håvard Kleven.

Lars Jørum og Håvard Kleven dæma fyrsta undanúrslitaleik Íslands síðan árið 2010.Getty/Soeren Stache

Þeir dæmdu einmitt einnig leik Íslands og Svíþjóðar á sunnudaginn, þar sem Ísland fagnaði öruggum átta marka sigri.

EHF hefur svo þegar gefið út hverjir munu dæma lokaleiki mótsins, á sunnudaginn. Spánverjarnir Ignacio Garcia og Andreu Marín dæma leikinn um bronsverðlaunin, klukkan 14:15 að íslenskum tíma, og þeir Milos Raznatovic og Ivan Pavicevic frá Svartfjallalandi dæma svo úrslitaleikinn klukkan 17.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×