Skoðun

Hvernig byggjum við upp há­gæða al­mennings­sam­göngur?

Þórir Garðarsson skrifar

Hágæða almenningssamgöngur byggjast ekki á stærri og stífari kerfum, heldur á snjallvæðingu, sveigjanleika og aðlögun að ferðavenjum fólks. Í þróun samgangna á að fara frá stórum einingum yfir í minni og liprari lausnir þegar tæknin leyfir. Því minni og sveigjanlegri sem einingarnar eru, því betur er ferðalagið sniðið að þörfum farþegans í stað þess að farþeginn þurfi að laga sig að kerfinu.

Að fækka leiðum og stækka strætisvagna eins og Borgarlínan er hugsuð er afturför. Það er gamaldags nálgun sem lítur á fólk eins og vörur sem eigi að flytja á milli skiptistöðva. Framfarir felast í fleiri leiðum, meiri tíðni ferða og minni, liprari vögnum sem komast nær fólki og áfangastað þess.

Ef við viljum byggja upp almenningssamgöngur sem fólk treystir og notar af vilja, verðum við að byrja á einni grundvallarhugsun: Kerfið á að laga sig að fólkinu, ekki fólkið að kerfinu.

Það krefst snjallvæðingar. Í alla vagna þarf að setja GPS-tengda teljara og skynjara sem safna gögnum í rauntíma um inn- og útstig, staðsetningu og tíma. Þannig fáum við nákvæma mynd af álagi, ferðamynstri og flöskuhálsum í kerfinu. Þá hættum við að byggja ákvarðanir á ágiskunum og byrjum að byggja þær á staðreyndum.

Þessi gögn eru síðan unnin með gervigreind sem greinir mynstur og leggur til markvissar úrbætur, smávægilegar breytingar á leiðum, aukna tíðni á réttum tímum eða viðbótarferðir þar sem þörfin er raunverulega til staðar. Smáar, réttar aðgerðir geta haft mun meiri áhrif en ein stór og dýr kerfisbreyting.

Kerfið á jafnframt að tengjast veðurspám. Á norðurslóðum mótar veðrið ferðavenjur meira en flest annað. Ef spáð er snjókomu eða óveðri má bregðast við fyrirfram aukinni eftirspurn á ákveðnum leiðum. Þá verður þjónustan fyrirbyggjandi í stað þess að vera alltaf í viðbragðsstöðu.

Þannig verður Strætó lifandi kerfi sem þróast dag frá degi. Ekki stíft skipulag sem fólk þarf að beygja sig undir, heldur þjónusta sem aðlagar sig að raunverulegum þörfum farþega.

Höfundur er stjórnarmaður í Félagi Sjálfstæðismanna í Grafarvogi




Skoðun

Skoðun

Fimm rang­færslur um Byrjendalæsi

Gunnar Gíslason,Guðmundur Engilbertsson,Jenný Gunnbjörnsdóttir ,Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir,Rannveig Oddsdóttir,Rúnar Sigþórsson skrifar

Sjá meira


×