Erlent

Tekur stóra skammta af magnýl og leiðist að hreyfa sig

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Donald og Melania Trump mæta á viðburð í Mar-a-Lago á gamlárskvöld.
Donald og Melania Trump mæta á viðburð í Mar-a-Lago á gamlárskvöld. Getty/Joe Raedle

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist vera við „fullkomna“ heilsu og neitar að hann hafi sofnað á fundum. Segist forsetinn einfaldlega vera að loka augunum til að slaka á.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í frétt Wall Street Journal, sem ræddi við Trump um heilsu hans. Spurningar hafa vaknað um heilbrigði forsetans á síðustu vikum og mánuðum en hann er 79 ára gamall og elsti maðurinn til að sverja embættiseið vestanhafs.

Samkvæmt umfjöllun WSJ fer umræða um heilsufar Trump verulega í taugarnar á forsetanum, sem segist við hestaheilsu. 

Meðal þess sem hefur vakið athygli er viðvarandi mar á handarbökum forsetans, sem hann eða aðstoðarmenn hans hafa freistað að hylja með farða. Marið var fyrst útskýrt með vísan til mikils fjölda handabanda en í samtalinu við WSJ sagðist Trump taka 325 mg af aspirín á dag, sem hefði þau áhrif að hann fengi marbletti við minnsta tilefni.

Aspirín inniheldur asetýlsalisýlsýru eins og magnýl og er stundum ávísað af læknum til blóðþynningar en þá í mun minni skömmtum. Að sögn Trump hefur hann hins vegar tekið stóra skammta í um 25 ár og neitar að hætta því. „Þeir segja að aspirín sé gott til að þynna út blóðið og ég vil ekki þykkt blóð að renna um hjartað mitt,“ sagði hann við WSJ.

Trump leiðrétti einnig sjálfan sig og sagðist hafa gengist undir sneiðmyndatöku fyrr á árinu en hann haðfi áður sagst hafa verið látinn fara í segulómun. Að sögn Sean Barbaella, sem er einn af læknum forsetans, var tilgangur sneiðmyndatökunnar að útiloka blóðrásartengd vandamál. 

Trump greindi einnig frá því í samtalinu við WSJ að honum hefði verið ráðlagt að nota þrýstingssokka eftir að hann greindist með bláæðabilun, sem er algeng hjá eldra fólki. Hann hefði þó ekki farið að þeim ráðum, þar sem honum líkuðu ekki sokkarnir. Þess í stað hafi hann dregið úr bólgum í fótunum með því að standa oftar upp.

Frekari hreyfing væri honum þó ekki að skapi.

„Mér líkar það bara ekki,“ sagði hann um reglulega hreyfingu. „ Að labba á hlaupabretti eða hlaupa á hlaupabretti í margar klukkustundir eins og sumir gera; það er ekki fyrir mig.“

Hvað varðaði hina meintu svefnhöfgi, þá lokaði hann stundum augunum til að slaka á. Þá næðu ljósmyndarar stundum myndum af honum þar sem hann virtist sofandi en væri einfaldlega að blikka augunum akkúrat þegar smellt væri af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×