Sport

Þetta er vitað um bana­slysið sem Anthony Joshua slapp lifandi úr

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anthony Joshua var í heimsókn hjá fjölskyldu sinni í Nígeríu yfir jólahátíðina og á leið heim þegar slysið varð.
Anthony Joshua var í heimsókn hjá fjölskyldu sinni í Nígeríu yfir jólahátíðina og á leið heim þegar slysið varð. Getty/Ed Mulholland/

Hnefaleikkappinn Anthony Joshua hlaut aðeins minni háttar meiðsl í bílslysi í Nígeríu í dag þar sem tveir létust.

Hnefaleikakappinn var á leið frá Lagos til heimilis fjölskyldunnar, að sögn ættingja hans.

Slysið varð í morgun þegar Joshua var á ferð á mjög fjölfarinni hraðbraut, en hann var í aftursæti Lexus-bifreiðar. Það hafa birst myndir af honum í bílnum eftir slysið sem og myndir af bílnum mjög illa förnum.

Einn mannskæðasti vegur landsins

Vegurinn er almennt þekktur sem Lagos-Ibadan-hraðbrautin og hefur verið lýst af staðbundnum fjölmiðlum sem einum af mannskæðustu vegum Nígeríu.

Lagos-Ibadan-hraðbrautin tengir saman Ibadan, höfuðborg Oyo-fylkis, og Lagos, stærstu borg Nígeríu. Hún er 127 kílómetrar að lengd.

Umferðin á veginum er sérstaklega mikil á þessum árstíma þar sem margir Nígeríubúar sem búa erlendis ferðast heim til landsins til að halda hátíðirnar.

Breska ríkisútvarpið hefur aflað sér upplýsinga um slysið og má finna hér fyrir neðan það sem er vitað.

Fimm voru i bílnum

Fimm menn voru í bílnum þegar hann lenti í árekstri við kyrrstæðan vörubíl við vegkantinn, að sögn yfirvalda. Umferðaröryggisstofnun Nígeríu segir að bíllinn, Lexus-jeppi, sé grunaður um að hafa ekið yfir hámarkshraða og misst stjórn á honum við framúrakstur.

Tveir létust í slysinu en Joshua var bjargað á lífi – hlaut minni háttar meiðsl – og tveir aðrir sluppu ómeiddir.

Myndir sem umferðaröryggisstofnunin birti sýna slysstaðinn. Yfirvöld segja að lögregla hafi verið komin á vettvang innan þriggja mínútna frá því að tilkynnt var um atvikið.

Einn af ættingjum Joshua segir við BBC að fréttir af slysinu hafi komið fjölskyldunni „í opna skjöldu“. „Við vonumst eftir skjótum bata hans og biðjum fyrir sálum þeirra sem létust,“ bætir ættinginn við.

Tveir erlendir karlmenn létust

Stjórnvöld í Ogun-fylki segja að þeir tveir sem létust í slysinu hafi verið „tveir erlendir karlmenn“, samkvæmt bráðabirgðaskýrslum. Stjórnvöld í Ogun segja að Joshua og bílstjóranum hafi verið bjargað úr bílnum af öryggisvörðum sem voru með honum í för.

Nokkrum klukkustundum fyrir slysið birti Joshua myndband á Instagram þar sem hann spilaði borðtennis við annan mann.

Fyrrverandi heimsmeistarinn í þungavigt hafði dvalið í Nígeríu eftir nýlegan bardaga sinn við Jake Paul þann 19. desember.

Langafi hans auðugur landeigandi

Anthony Oluwafemi Olaseni Joshua fæddist í Watford á Englandi en hefur oft talað stoltlega um nígerískan uppruna sinn. Joshua-ættin er vel þekkt í Sagamu í suðvesturhluta Nígeríu og rekur ættir sínar þangað nokkrar kynslóðir aftur í tímann.

Langafi hans, Daniel Adebambo Joshua, var auðugur landeigandi og kaupmaður sem er talinn hafa tekið upp Joshua-eftirnafnið eftir að hafa snúist til kristni.

Stoltur af Nígeríutengslunum

Eitt skýrasta merkið um stolt Joshua af uppruna sínum er húðflúr af Afríku á hægri öxl hans þar sem útlínur Nígeríu eru greinilegar.

Í bardögum hans er nígeríski fáninn reglulega sýndur við hlið breska fánans í hringnum, meðal annars eftir sigur hans á Jake Paul fyrr í mánuðinum.

Í Ogun, þar sem Joshua er íþróttasendiherra, eru áform um að byggja nýjan innanhússhnefaleikavettvang sem nefndur verður eftir fyrrverandi heimsmeistaranum í þungavigt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×