Erlent

Mun funda með Trump „í náinni fram­tíð“

Atli Ísleifsson skrifar
Volodýmýr Selenskí Úkraínuforseti segir að samtöl fulltrúa Úkraínustjórnar við erindreka Bandaríkjanna á síðustu dögum hafi verið góð.
Volodýmýr Selenskí Úkraínuforseti segir að samtöl fulltrúa Úkraínustjórnar við erindreka Bandaríkjanna á síðustu dögum hafi verið góð. AP

Volodýmýr Selenskí Úkraínuforseti mun funda með Donald Trump Bandaríkjaforseta „í náinni framtíð“ og segir hann að margt geti ráðist fyrir árslok.

Þetta segir Selenskí í færslu á X sem hann birti í morgun. Þar segir hann að Rustem Umerov, forseti þjóðaröryggisráðs Úkraínu, hafi upplýst sig um síðustu fundi sína með fulltrúum Bandaríkjastjórnar. „ Við sóum ekki einum einasta degi. Við höfum sammælst um fund á æðsta stigi – með Trump forseta í náinni framtíð. Margt getur ráðist áður en nýtt ár gengur í garð,“ segir forsetinn úkraínski í færslunni.

Umerov hefur á síðustu dögum fundað bæði með Steve Witkoff, sendifulltrúa Trump í málefnum Úkraínu, og Jared Kushner, tengdasyni Trump, um leiðir til að binda enda á stríðið í Úkraínu, en tæp fjögur ár eru brátt liðin síðan Rússar hófu innrás sína í landið.

Í frétt BBC segir að Selenskí hafi sjálfur átt um klukkustundarlangt símtal við þá Witkoff og Kushner þar sem varpað hafi verið fram nýjum hugmyndum, ramma og tímasetningum um hvernig væri hægt að stíga skrefi nær friði.

Selenskí hafði áður kynnt uppfærða friðaráætlun í tuttugu liðum sem fulltrúar Bandaríkjastjórnar og Úkraínu höfðu rætt á fundi í Flórída, en nokkrar vikur eru nú liðnar síðan Witkoff kynnti frumdrög áætlunarinnar. Upphafleg drög sættu mikilli gagnrýni af hálfu Úkraínumanna og evrópskra bandamanna þeirra þar sem í þeim var að stærstum hluta fallist á kröfur Rússa um að úkraínski herinn myndi hörfa frá þeim úkraínsku landsvæðum sem Rússar höfðu náð á sitt vald og voru drögin í raun talin fela í sér uppgjöf Úkraínu gagnvart Rússlandi.

Selenskí sagði að hin uppfærðu drög fælu meðal annars í sér öryggistryggingar frá Bandaríkjunum, Nato og Evrópuríkjum um samhæfð, hernaðarleg viðbrögð ef Rússland myndi ráðast á Úkraínu á nýjan leik.


Tengdar fréttir

Kynnti drög að nýrri friðaráætlun

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti greindi frá helstu atriðum í tuttugu punkta drögum að friðarsamkomulagi sem Úkraína og Bandaríkin hafa til skoðunar. Forsetinn trúir því að drögin gætu orðið grunnurinn að friðarsamkomulagi þeirra við Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×