Erlent

Sagður til­búinn að yfir­gefa Venesúela með frið­helgi

Samúel Karl Ólason skrifar
Nicolas Maduro, forseti Venesúela.
Nicolas Maduro, forseti Venesúela. AP/Cristian Hernandez

Nicolas Maduro, forseti Venesúela, sagði í samtali við Donald Trump, kollega sinn í Bandaríkjunum, í síðasta mánuði að hann væri tilbúinn til að yfirgefa ríki sitt. Hann og fjölskylda hans þyrftu þó að fá almenna friðhelgi frá lögsókn.

Bandaríkjamenn hafa beitt Maduro og Venesúela miklum þrýstingi að undanförnu og komið fyrir umtalsverðum herafla á Karíbahafinu. Trump hefur kallað eftir því berum orðum að Maduro verði komið frá völdum en hefur ekki viljað segja hvort hann sé tilbúinn til að beita hervaldi til að velta honum úr sessi.

Maduro hefur verið ákærður af Bandaríkjamönnum fyrir fíkniefnasmygl og hryðjuverkastarfsemi og er hann sakaður um að stýra glæpasamtökum sem kallast Cartel de los Soles, og eru sögðu koma að því að smygla fíkniefnum til Bandaríkjanna.

Venesúela hefur um langt skeið verið viðkomustaður kókaíns frá Kólumbíu sem flutt hefur verið til Bandaríkjanna og til Evrópu. Samtökin eru sögð vinna innan hers Venesúela og í samstarfi við önnur glæpasamtök eins og Tren de Aragua í Venesúela og Sinaloa-samtökin í Mexíkó.

Bandaríkjamenn hafa ekki fært sannanir fyrir þessum ásökunum sínum. Háttsettir menn í her og stjórnmálum Venesúela hafa ítrekað í gegnum árin verið bendlaðir við fíkniefnasmygl og framleiðslu.

Viðræður við Lúkasjenka

Í gær tóku Bandaríkjamenn yfir olíuflutningaskip undan ströndum Venesúela. Þá sagði Trump: „...það er fleira í gangi, þið munuð sjá það síðar og munið tala um það síðar við aðra.“

Sjá einnig: Leggja hald á olíu­flutninga­skip undan ströndum Venesúela

Í samtali þeirra á milli í síðasta mánuði er Trump sagður hafa krafist þess við Maduro að hann segði af sér og yfirgæfi Venesúela.

Sjá einnig: Trump sagður hafa sett Maduro afarkosti

Reuters sagði svo frá því í dag að í þessu samtali, sem átti sér stað þann 21. nóvember, hefði Maduro sagst tilbúinn til þess, að gefnum áðurnefndum skilyrðum. Enn fremur segir fréttaveitan að forsetinn og erindrekar hans hafi átt í samræðum við Alexander Lukasjenka, einræðisherra Belarús, að undanförnu.

Þann 25. nóvember birtist frétt í ríkismiðli Belarús um að Lukasjenka hefði tekið á móti erindreka frá Venesúela og sagt honum að Maduro væri ávallt velkominn þar í landi. Kominn væri tími á að hann heimsækti Belarús.

Ríkismiðillinn sagði svo frá því í dag að Lúkasjenkó hefði átt annan fund með erindreka þessum. Á þeim fundi hafi Lúkasjenkó sagt að þegar búið væri að „greiða úr tilteknum málum“ væri hægt að taka „viðeigandi ákvörðun“ og ræða málið frekar við Maduro.

Þetta þykir allt mjög loðið en forsetaembætti Belarús hefur ekki svarað fyrirspurn Reuters um það hvort Lúkasjenka sé tilbúinn til að veita Maduro hæli.

Lúkasjenka hefur lengi átt í góðum samskiptum við Maduro og hefur á þessu ári verið í samskiptum við ríkisstjórn Trump, en það er í fyrsta sinn í nokkurn tíma sem Belarús og Bandaríkin hafa átt í samskiptum. Trump hefur dregið úr refsiaðgerðum í garð Belarús að undanförnu.

Ræddi við Pútín í síma

Ríkismiðlar Rússlands sögðu frá því í dag að Vladimír Pútin, forseti Rússlands, hefði rætt við Maduro í síma í dag. Pútín er sagður hafa lýst yfir samstöðu með velensúensku þjóðinni og stuðningi við ríkisstjórn Maduros.

Maduro hefur áður beðið Rússa um aðstoð í formi hergagna en svo virðist sem að ekki hafi verið orðið við þeirri beiðni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×