Erlent

Viður­kenna um­deilda á­rás en fría Hegseth á­byrgð

Samúel Karl Ólason skrifar
Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. EPA/Orlando Barria

Umdeild árás á bát sem sagður er hafa verið notaður til að flytja fíkniefni um Karíbahaf var fullkomlega lögleg, samkvæmt talskonu Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna. Hún segir Pete Hegseth, varnarmálaráðherra, ekki hafa gefið skipunina, heldur hafi það verið Frank M. Bradley, aðmíráll, sem leiðir sérsveitir Bandaríkjanna (SOCOM), sem hafi gert það.

Umrædd árás var gerð þann 2. september og var það fyrsta árásin af mörgum á undanförnum vikum.

Hún beindist að bát sem ríkisstjórnin segir að hafi verið notaður til að flytja fíkniefni. Að minnsta kosti tveir menn eru sagðir hafa lifað hana af og haldið sér á floti með því að halda í brennandi brak úr bátnum. Þá var önnur árás gerð til að bana mönnunum.

Myndband af fyrri árásinni var birt á sínum tíma. Í yfirlýsingu sem fylgdi myndbandinu sagði að ellefu hefðu dáið í árásinni og er alltaf talað um árás í eintölu.

Washington Post sagði frá því í síðustu viku að Hegseth hefði gefið þá skipun að bana öllum um borð í bátunum. Slíkt gæti verið stríðsglæpur og hafa þingmenn beggja flokka i báðum deildum Bandaríkjaþings sagst ætla að skoða málið.

Sjá einnig: Krefjast svara um fyrirskipanir Hegseth varðandi bátaárásirnar

Í frétt Washington Post kom fram að Hegseth hefði gefið Bradley munnlega skipun um að „drepa þá alla“. Donald Trump, forseti, sagði um helgina að Hegseth segist ekki hafa sagt það.

Þá sagði Trump að hann hefði persónulega ekki viljað að þessi seinni árás hefði verið gerð.

Síðan þessi árás var gerð er vitað til þess að mönnum sem lifað hafa aðrar árásir af hefur verið bjargað og þeir fluttir í land.

Sagði Bradley hafa framfylgt skipunum Hegseths

Karoline Leavitt, talskona Trumps, sagði á blaðamannfundi í kvöld að árásin hefði verið gerð á alþjóðlegu hafsvæði og að hún hafi verið í samræmi við lög um vopnuð átök. Bradley hafi verið að framfylgja skipunum Hegseths og að árásin hafi verið gerð til að útrýma ógn gegn Bandaríkjunum og tryggja að bátnum hefði verið grandað.

Árásin hafi verið gerð til að verja Bandaríkjamenn. Þegar hún var spurð hvernig mennirnir tveir sem lifðu fyrri árásina af ógnuðu Bandaríkjamönnum neitaði Leavitt að svara, samkvæmt frétt CNN.

Nokkrir dagar eru síðan Sean Parnell, talsmaður Varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, staðhæfði að fregnir af árásinni 2. september væru eintómar lygar. Hann sagði að falskir fréttamenn væru „óvinir fólksins“.

Trump og starfsfólk hans hafa haldið því fram að Bandaríkin eigi í átökum við fíkniefnasamtök í Suður-Ameríku sem hafa verið skilgreind sem hryðjuverkasamtök. Því hefur verið haldið fram að þessir meintu smyglarar séu vígamenn og Bandaríkin eigi í átökum við þá.

Hegseth deildi þessar mynd á X í gær þar sem hann virðist gantast um málið.

Engar sannanir hafa enn sem komið er verið lagðar fram til að sanna þessar ásakanir og dómstólar hafa ekki fjallað um sekt manna um borð í þessum bátum. Árásirnar hafa því verið kallaðar aftökur án dóms og laga.

Sjá einnig: Engin heimild til að granda skipum vegna gruns um smygl við Ísland

Vitað er að minnst tuttugu slíkar árásir hafa verið gerðar á Karíba- og Kyrrahafi og hafa tugir manna fallið í þeim. Trump og hans fólk hafa haldið því fram að forsetinn þurfi ekki að lýsa formlega yfir stríði, með aðkomu þingsins.

AP fréttaveitan segir að Trump ætli að funda með þjóðaröryggisteymi sínu í kvöld vegna þessa máls.


Tengdar fréttir

Hegseth bannar nú samskipti við þingið

Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur sett hæst settu embættismönnum ráðuneytisins nýjar reglur varðandi samskipti þeirra við þingmenn. Öll slík samskipti eiga nú að fara gegnum æðstu lögmenn ráðuneytisins, sem þurfa að veita herforingjum leyfi til að ræða við þingmenn.

Hegseth í stríði við blaðamenn

Leiðtogar stærstu fréttastofa Bandaríkjanna og annarra alþjóðlegra fjölmiðla hafa tilkynnt að þeir muni ekki samþykkja nýjar reglur varnarmálaráðuneytisins um blaðamenn. Reglurnar setja verulega tálma á störf blaðamanna í ráðuneytinu og meina þeim í raun að birta fréttir sem hafa ekki verið samþykktar af yfirmönnum ráðuneytisins og að spyrja starfsmenn spurninga.

Segir herforingjum að búa sig undir átök gegn innlendum „óvinum“

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði bandarískum herforingjum og aðmírálum að búa sig undir að beita hernum innan Bandaríkjanna, gegn innlendum óvinum. Þetta sagði Trump í ræðu á fordæmalausum fundi með um átta hundruð af æðstu leiðtogum herafla Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×