Erlent

Enn eitt valda­ránið í Vestur-Afríku?

Samúel Karl Ólason skrifar
Umaro Sissoco Embalo, forseti Gíneau-Bissaú, segist hafa verið handtekinn af hermönnum.
Umaro Sissoco Embalo, forseti Gíneau-Bissaú, segist hafa verið handtekinn af hermönnum. AP/Stephane de Sakutin

Útlit er fyrir að enn eitt valdaránið sé að eiga sér stað á vesturströnd Afríku. Umaro Sissoco Embaló, forseti Gíneu-Bissaú, segist hafa verið handtekinn af her ríkisins í forsetahöll sinni í dag. Tveir æðstu herforingjar landsins og innanríkisráðherra munu einnig hafa verið handteknir en skothríð heyrðist í Bissaú, höfuðborginni, fyrr í dag.

Staðan er enn sem komið er mjög óljós í ríkinu, sem er eitt fátækasta ríki Afríku og heimsins, en France24 segir leiðtoga hersins hafa lýst því yfir að þeir hafi fulla stjórn á Gíneu-Bissaú.

Undanfarin ár hafa fjölmörg valdarán verið framin í Vestur-Afríku og á Sahel-svæðinu svokallaða. Meðal annars í Búrkína Fasó, Malí, Tjad, Níger, Gíneu og Gabon.

Einungis þrír dagar eru síðan umdeildar forseta- og þingkosningar voru haldnar í Gíneu-Bissaú en báðir helstu frambjóðendurnir hafa lýst yfir sigri í kosningunum. Embaló er annar þeirra en hinn heitir Fernando Dias.

Jeune Afrique segir að forsetinn hafi lýst því yfir að hann hafi fengið 65 prósent atkvæða, samkvæmt hans eigin talningu, en til stóð að birta opinber úrslit kosninganna á morgun.

Í frétt France24 segir að stærsta stjórnarandstöðuflokki Gíneu-Bissaú og Domingos Simoes Pereira, leiðtoga hans, hafi verið meinuð þátttaka í kosningunum skömmu áður en þær fóru fram. Hæstiréttur ríkisins sagði formlegt framboð flokksins hafa borist of seint til yfirvalda. Það leiddi til töluverðrar reiði.

Embaló og Pereira eru miklir andstæðingar en í síðustu forsetakosningum, árið 2019, var mikil pólitísk ólga í um fjóra mánuði eftir að báðir menn sögðust hafa sigrað í kosningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×