Erlent

Em­bættis­menn hafa á­hyggjur af sölu F-35 her­þota til Sádi Arabíu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Viðræður standa yfir um kaup Sádi Araba á 48 F-35 herþotum frá Bandaríkjunum.
Viðræður standa yfir um kaup Sádi Araba á 48 F-35 herþotum frá Bandaríkjunum. Getty/Mario Tama

Embættismenn innan varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna eru sagðir uggandi yfir sölu F-35 herþota til Sádi Arabaíu, þar sem líkur séu á að Kínverjar gætu nýtt sér tækifærið til að komast yfir tæknina sem vélarnar byggja á.

Frá þessu greinir New York Times en stjórnvöld í Bandaríkjunum og Sádi Arabíu eiga í viðræðum um sölu 48 F-35 herþota fyrir milljarða dala. Mohammed bin Salman, krónprins Sádi Arabíu, mun heimsækja Donald Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsið í næstu viku.

Áhyggjur manna virðast bæði beinast að mögulegum njósnum Kínverja í Sádi Arabíu og varnarsamkomulags Kína og Sádi Arabíu. Þá eru viðskiptin sögð vekja spurningar um það hvort Bandaríkjamenn séu með þeim að grafa undan hernaðarlegu forskoti Ísraels í Mið-Austurlöndum, þar sem Ísraelar eru eina þjóðin á svæðinu sem á F-35 þotur.

Ríkisstjórn Trump samþykkti árið 2020 að selja F-35 til Sameinuðu arabísku furstadæmana en viðskiptunum var mótmælt, meðal annars vegna áhyggja af því að Kínverjar kæmust yfir tæknina og vegna Ísraels.

Ríkisstjórn Joe Biden tók samninginn til endurskoðunar árið 2021 og gerði meðal annars kröfu um „kill switch“ í vélunum, það er að segja að Bandaríkin gætu gert vélarnar óvirkar í neyð. Embættismönnum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þótti of langt gengið og ekkert varð úr viðskiptunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×