Innlent

Leið­beinandinn á Múlaborg í gæslu­varð­haldi í mánuð í við­bót

Árni Sæberg skrifar
Maðurinn hafði starfað sem leiðbeinandi á Múlaborg í um tvö ár þegar hann var handtekinn.
Maðurinn hafði starfað sem leiðbeinandi á Múlaborg í um tvö ár þegar hann var handtekinn. Vísir/Anton Brink

Leiðbeinandi á leikskólanum Múlaborg, sem grunaður er um kynferðisbrot gegn barni, hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 21. október næstkomandi, á grundvelli almannahagsmuna. Þá mun hann hafa mátt dúsa í varðhaldi í tíu vikur.

Þetta staðfestir Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi. Hann segir dómara hafa úrskurðað manninn í áframhaldandi gæsluvarðhald í gær og að það hafi verið gert á grundvelli almannahagsmuna.

Hingað til hefur maðurinn verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Gunnar Rúnar segist ekki geta upplýst um gang rannsóknarinnar.

Maðurinn hefur sætt varðhaldi frá handtöku þann 12. ágúst og mun því hafa verið í gæsluvarðhaldi í tíu vikur þegar núverandi varðhald líður. Samkvæmt lögum um meðferð sakamála er hámarkstími gæsluvarðhalds tólf vikur, nema mál hafi verið höfðað gegn sakborningi eða brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×