Erlent

Fjar­lægðu skýrslu um pólitískt of­beldi hægri öfga­manna

Samúel Karl Ólason skrifar
Pam Bondi, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
Pam Bondi, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. AP/Evan Vucci

Skýrsla sem fjallaði um ofbeldisverki fjar-hægri öfgamanna í Bandaríkjunum hefur verið fjarlægð af síðu dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna. Í skýrslunni kom meðal annars fram að frá 1990 hafa öfgamenn á hægri væng bandarískra stjórnmála framið mun fleiri pólitísk morð en vinstri sinnaðir öfgamenn eða íslamistar.

Undanfarna daga hafa hægri menn í Bandaríkjunum ítrekað haldið því fram að það sé vinstrið sem sé mun hættulegra en hægrið, eftir morðið á Charlie Kirk, áhrifamiklum hægri sinnuðum áhrifavaldi, í síðustu viku.

Donald Trump, forseti, hefur verið gagnrýndur fyrir mismunandi viðbrögð við ofbeldisverkum, eftir því gegn hverjum og hvaða fylkingum þau beinast.

Trump-liðar hafa á undanförnum dögum heitið hefndum og hefur Trump sjálfur hótað því að beita lögum gegn skipulagðri glæpastarfsemi gegn pólitískum andstæðingum sínum. Innan Hvíta hússins er víst unnið að lista yfir vinstri sinnuð samtök og hópa sem eiga að ýta undir ofbeldi.

Sjá einnig: Trump-liðar heita hefndum

Í skýrslunni, sem birt var í janúar í fyrra og ber titillinn „Það sem gögn NIJ (Greiningarstofnun dómsmálaráðuneytisins) segja okkur um innlenda hryðjuverkastarfsemi“, kemur fram að frá 1990 hafi öfgahægri menn framið minnst 227 ofbeldisverk sem valdið hafi dauða að minnsta kosti 520 manns.

Vinstri sinnaðir öfgamenn hafi framið að minnsta kosti 48 ofbeldisverk og banað 78 manns.

Það að skýrslan sé nú ekki lengur aðgengileg á síðu ráðuneytisins hefur verið staðfest að fjölmiðlum ytra, eins og AFP fréttaveitunni og 404 Media. Fyrirspurnum um af hverju skýrslan var fjarlægð hefur ekki verið svarað en aðrar skýrslur þar sem vakin er athygli á hættunni frá hægri sinnuðum öfgamönnum eru víst enn aðgengilegar.

Þá er vert að benda á að forsetatilskipanir Trumps um að banna það sem kallast DEI, eða fjölbreytni, jafnrétti og inngilding, hjá alríkisstofnunum hefur leitt til þess að heilmikið af efni hefur verið fjarlægt af vefsvæðum þeirra á undanförnum mánuðum.

Oft er þó sagt að netið gleymi engu og má enn finna skýrsluna á Waybackmachine.

Þar segir einnig að sérfræðingar heimavarnaráðuneytis Bandaríkjanna telji að innlend hryðjuverkastarfsemi sé einhver helsta ógnin sem Bandaríkjamenn standi frammi fyrir. Að hlutir tengdir faraldri Covid, málefnum innflytjenda og orðræða um kosningasvindl muni áfram ýta undir og vera notaðir til réttlætingar fyrir ofbeldisverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×