Erlent

Ætla að fella niður bólusetningarskyldu í Flórída

Samúel Karl Ólason skrifar
Joseph Ladapo, heilbrigðisráðherra Flórída, á blaðamannafundi í dag. Fyrir aftan hann má sjá Ron DeSantis, ríkisstjóra.
Joseph Ladapo, heilbrigðisráðherra Flórída, á blaðamannafundi í dag. Fyrir aftan hann má sjá Ron DeSantis, ríkisstjóra. AP/Chris O'Meara

Ráðamenn í Flórída ætla sér að fella niður alla bólusetningarskyldu í skólum ríkisins og á öðrum vettvangi þar sem hún er í gildi á vegum ríkisins. Joseph A. Ladapo , heilbrigðisráðherra Flórída, líkti bólusetningar skyldu í dag við þrælahald.

Ladapo sagði á blaðamannafundi í dag að hver einasta bólusetningarskylda væri „löðrandi í fyrirlitningu og þrælahaldi“. Nauðsynlegt og rétt væri að fella þær úr gildi því ekki mætti segja fólki hvað það eigi að setja í líkama sinn.

Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, hefur lýsti fyrir stuðningi við áætlunina og sagði að hann gæti fell bólusetningarskyldu niður í einhverjum tilfellum en í öðrum þyrfti ríkisþing Flórída að breyta lögum.

Í Flórída er nemendum gert að vera bólusettir gegn mislingum, hettusótt, lömunarveiki, hlaupabólu og lifrabólgu B, samkvæmt frétt Washington Post.

Heilbrigðissérfræðingar og fjölmargir aðrir hafa gagnrýnt þessa áætlun harðlega en Lapado hefur lengi farið með fleipur og lygar um bóluefni og önnur mál sem snúa að heilsu. Í fyrra kallaði hann til að mynda eftir því að notkun mRNA bóluefna gegn Covid yrði hætt á þeim grundvelli að þau menguðum erfðamengi fólks, sem er þvæla.

Hann hefur sömuleiðis kallað eftir því að hætt verði að bæta flúorið í drykkjarvatn í Flórída.

Ætla að fylgja tillögum Kennedys

DeSantis segir að áætlun Repúblikana í Flórída byggi, samkvæmt AP fréttaveitunni, á tillögum Roberts F. Kennedy yngri, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna. Kennedy hefur um árabil verið einn helsti boðberi staðlausra samsæriskenninga um bóluefni í heiminum.

Sjá einnig: Vísuðu til rann­sókna sem voru ekki til í „heimsklassa“ skýrslu

Undanfarnar vikur hefur mikill glundroði ríkt innan Sjúkdómavarnamiðstöðvar Bandaríkjanna (CDC) vegna breytinga sem hann hefur gert þar og breytinga sem hann og samverkamenn hans hafa gert á leiðbeiningum um bólusetningar.

Kennedy hefur einnig frá því hann tók við embætti dregið verulega úr fjárveitingum til þróunar bóluefna.

Níu fyrrverandi forstöðumenn CDC til tæplega fimmtíu ára vöruðu nýverið við því að Kennedy ógnaði heilsu Bandaríkjamanna.

Kennedy hefur einnig haldið því fram í gegnum árin að bóluefni valdi einhverfu, sem er ekki rétt, að þráðlaust net valdi krabbameini og að þunglyndislyf leiði til skotárása í skólum í Bandaríkjunum.

Hann hefur einnig haldið því ranglega fram að bóluefni við kíghósta hafi dregið fleiri til dauða en það hafi bjargað. Kíghósti dró fjölda barna til dauða á árum áður en með bóluefnum hefur sjúkdómnum verið svo gott sem útrýmt á heimsvísu.

Á grunni þessara samsæriskenninga og rugls hefur Kennedy safnað miklum auð í gegnum árin.


Tengdar fréttir

Glundroði hjá einni fremstu lýðheilsu­stofnun heims

Þrír af æðstu yfirmönnum Sjúkdómavarnamiðstöðvar Bandaríkjanna, einnar fremstu lýðheilsustofnunar í heimi, sögðu af sér eftir að tíðindi um að Hvíta húsið hefði rekið forstöðumann hennar. Sá varar við því að Robert F. Kennedy yngri, heilbrigðisráðherra, „vopnavæði“ nú lýðheilsu í Bandaríkjunum.

Ekki fleiri greinst með mis­linga í Bandaríkjunum í 33 ár

Alls höfðu um 1.300 verið greindir með mislinga í Bandaríkjunum síðasta föstudag og hafa tilfellin ekki verið svo mörg í 33 ár. Árið 2000 var því lýst yfir að búið væri að útrýma sjúkdómnum í Bandaríkjunum. Auðvelt er að koma í veg fyrir að fólk fái sjúkdóminn með bóluefni.

Hætta þátt­töku í alþjóð­legu bólu­setningar­sam­starfi fyrir börn

Heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna og þekktur afneitari læknavísinda hélt reiðilestur yfir þátttakendum á fundi alþjóðlegs samstarfsverkefnis um bólusetningar barna í gær. Þar tilkynnti hann að Bandaríkin ætluðu að hætta að styrkja bólusetningarnar sem hafa bjargað milljónum mannslífa.

Rekur bólu­setningaráð stjórn­valda á einu bretti

Heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna og þekktur andstæðingur bóluefna rak ráðgjafaráð alríkisstjórnarinnar um bólusetningar eins og það leggur sig. Ráðið hefur verið skipað læknum og vísindamönnum frá læknadeildum helstu háskóla landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×