Erlent

Telja Rússa hafa truflað flug­vél for­seta fram­kvæmda­stjórnar ESB

Kjartan Kjartansson skrifar
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, þegar hún var stödd í Litháen nærri landamærunum að Belarús fyrr í dag.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, þegar hún var stödd í Litháen nærri landamærunum að Belarús fyrr í dag. AP/Mindaugas Kulbis

Flugmenn flugvélar Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, þurftu að styðjast við landabréf til þess að lenda vélinni í Búlgaríu vegna truflana á staðsetningarbúnaði hennar í morgun. Rússar eru taldir hafa truflað gervihnattarmerki.

Flugvélin hringsólaði yfir flugvelli í Plovdiv í Búlgaríu í um klukkustund eftir að staðsetningarbúnaður hennar varð gagnlaus skömmu fyrir lendingu, að sögn blaðsins Financial Times. Á endanum ákváðu flugmennirnir að lenda með aðstoð gamaldags landabréfa.

Talsmaður framkvæmdastjórnarinnar segir AP-fréttastofunnar að grunur leiki á að Rússar hafi truflað staðsetningarbúnaðinn.

„Við getum sannarlega staðfest að það voru GPS-truflanir. Við höfum fengið upplýsingar frá búlgörskum yfirvöldum um að þau gruni að þetta hafi verið greinilegar truflarnir Rússlands,“ sagði Arianna Podesta, talsmaðurinn.

Búlgörsk yfirvöld segja að gervihnattarmerkið sem GPS-búnaður flugvélarinnar reiðir sig á hafi verið truflað. Merkið hafi tapast þegar flugvélin nálgaðist flugvöllinn.

Heimsókn von der Leyen til Búlgaríu er hluti af ferðalagi hennar um landamærasvæði Evrópusambandsins að Rússlandi og Belarús.

Podesta segir uppákomuna undirstrika mikilvægi heimsóknar von der Leyen í framlínuríki sambandsins í austri. Forsetinn hafi nú fengið smjörþefinn af daglegum ógnunum sem stafi frá Rússlandi og leppríkjum þess.

Trufla gervihnattamerki yfir Eystrasalti

Flugsamgöngur í Finnlandi nærri Eystrasalti hafa ítrekað spillst á undanförnum misserum vegna truflana Rússa á gervihnattarmerkjum. Þeir eru meðal annars sagðir beita þeim brögðum til þess að fela ferðir olíuflutningaskipta sem brjóta gegn viðskiptaþvingunum vestrænna ríkja gegn Rússland vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Sums staðar í Finnlandi hafa flugmálayfirvöld dregið fram gamaldags fjarlægðarvita sem gervihnattatæknin leysti af hólmi til þess að hjálpa flugvélum að lenda þegar truflanir eru á GPS-sambandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×