Erlent

Sæti Artúrs logar

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Fjallið er kennileiti í Edinborg og gnæfir yfir gömlu borginni.
Fjallið er kennileiti í Edinborg og gnæfir yfir gömlu borginni. AP

Sinueldur kviknaði á Sæti Artúrs, fjallinu sem gnæfir yfir Edinborg, í dag. Fjallið er vinsæll áfangastaður ferðamanna og borgarbúa á hlýjum sumardögum en í dag sást login og reykstrókarnir um alla borgina.

Sæti Artúrs liggur fyrir miðju Holyrood Park við þinghús Skota þar sem hin fræga Konunglega míla endar. Fjallið gnæfir í um 250 metra hæð yfir gömlu borginni og er vinsæll útsýnisstaður.

Slökkviliðið í Edinborg brást skjótt við og lokaði aðgengi að fjallinu. Fjórir slökkvibílar voru gerðir út og unnið var að því að slökkva eldinn sem logaði um sinuna. Engar tilkynningar hafa borist um tjón á eignum eða mönnum.

Sumarið hefur verið óvenjulega þurrt og hlýtt í ár í Skotlandi þar sem annars rignir yfirleitt talsvert yfir sumartímann. Viðvaranir hafa ítrekað verið gefnar út um hættu á sinubruna undanfarna daga.

Samkvæmt slökkviliðinu í Edinborg standa slökkvistörf yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×