Skoðun

Úrsúla og öryggis­málin - Stöndum gegn vígvæðingu

Guttormur Þorsteinsson skrifar

Í dag kemur Ursula von der Leyen, formaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til landsins til þess að funda með forsætisráðherra og utanríkisráðherra um öryggismál og almannavarnir. Hún er boðin velkomin með eldgosi og getur því séð viðbúnað Íslands gegn þessari ógn í eigin persónu. Stjórnarráðið hefur hins vegar gefið út að heimsóknin þjóni einnig þeim tilgangi að „skerpa sýn helstu banda­manna okk­ar á viðvar­andi ör­ygg­is­áskor­an­ir á norður­slóðum og í Norður-Atlants­hafi”.

Miðað við stefnu ríkisstjórnarinnar og Evrópusambandsin er þar ekki átt við eldgos, snjóflóð, sjávarháska og ógnina af loftslagsbreytingum heldur hernaðarlega ógn. Forsætisráðherra hefur nýlega lýst því yfir að eyða skuli 1,5% landsframleiðslu, jafngildi framlaga ríkisins til alls háskólastigsins, í varnartengd útgjöld. Utanríkisráðherra hóf kjörtímabilið á því að tala um fælingarmáttinn í veru herliðs hér á landi og von der Leyen talaði í vor fyrir 800 milljarða evra vígvæðingarpakka Evrópusambandsins sem miðar að því að efla hergagnaiðnað álfunar og byggja upp stórskotalið, drónasveima og loftvarnir.

Komu von der Leyen hefur þegar verið mótmælt vegna glæpsamlegs aðgerðaleysis Evrópusambandsins gagnvart þjóðarmorðinu í Palestínu og þá sérstaklega Gaza. En það er líka full ástæða til að standa gegn pressu Evrópuríkja á að Ísland taki þátt í vígvæðingarbrjálæði þeirra. Á síðasta Nató fundi samþykktu öll Evrópuríkin, sum þó með seimingi, að eyða 5% þjóðarframleiðslu í vígbúnað, upphæð sem er margföldun á núverandi útgjöldum og mun leggja velferðarmál í rúst og stoppa allann framgang í umhverfismálum. Þaðan kemur krafan um að Ísland auki við vígbúnað, axli meiri ábyrgð á eigin hervörnum og gefist upp á því að halda norðurslóðum utan við skylmingar stórveldanna.

Evrópusambandið mun ekki koma okkur til bjargar ef að Ísland lendir á milli tannanna á Bandaríkjunum, Rússlandi og Kína og það er ekkert í núverandi samningum sem skuldbindur Íslendinga til þess að eyða peningum í hernaðaruppbyggingu. Ísland ætti að einbeita sér að borgaralegum vörnum gegn nærtækustu ógninni sem að okkur steðjar, náttúruöflunum. Herveldi Evrópu og Norður-Ameríku geta borgað fyrir sína eigin heri. Ég beini því til forsætis- og utanríkisráðherra á fundinum í dag að þær standi fastar gegn kröfum um að Ísland sói meiri peningum í morðvopn og malbik fyrir þau.

Höfundur er formaður Samtaka hernaðarandstæðinga.




Skoðun

Sjá meira


×