Erlent

Leggur á 104 prósenta tollgjöld á Kína

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Mark Schiefelbein

Bandaríkin hafa lagt á 104 prósenta tollgjöld á innfluttar vörur frá Kína vegna mótvægisaðgerða stjórnvalda þar. Tollgjöldin taka gildi á miðnætti vestanhafs.

Þetta staðfesti Karoline Leavitt, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, samkvæmt umfjöllun BBC

Fimm dagar eru síðan stjórn Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, lögðu á tollgjöld á lönd heimsins. Þar af var lagður 34 prósenta tollur á vörur frá Kína. Sá tollur bættist við að lágmarki tuttugu prósenta toll sem höfðu þegar verið settir á. 

Kínversk stjórnvöld kynntu þá mótaðgerðir og sögðust ætla sjálf að leggja 34 prósenta tolla á vörur frá Bandaríkjunum. Trump var óánægður með hótunina og sagði að hann myndi hækka sína tolla myndu kínversk stjórnvöld ekki hætta við mótaðgerðirnar. 

Sjá nánar: Saka Bandaríkin um kúgun og svara fyrir sig

Leavitt sagði á blaðamannafundi að Trump trúi því að yfirvöld í Kína séu tilbúin í að semja. Það væru mistök af hálfu Kínverja að fara í mótvægisaðgerðir og því voru tollgjöldin hækkuð. Þá fari öll tollgjöld í gildi á ásettum tíma, engum gjöldum verði frestað.

Ráðamenn um sjötíu landa hafa haft samband við yfirvöld í Bandaríkjunum til að semja um lægri tollgjöld, þar á meðal Japan, líkt og forsetinn greindi sjálfur frá í gærkvöldi. Að sögn Leavitt gætu lönd sem verða rukkuð um tíu prósent tollgjöld, líkt og Ísland, samið um lægri gjöld. Það sé hins vegar verkefni forsetans að ákveða hvort að eitthvað verði úr samningaviðræðum við þessu sjötíu lönd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×