Skoðun

Á­byrgð ríkis og sveitar­fé­laga er mikil

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Menntastefna 2030 segir: ,,Menntun er lykill að tækifærum framtíðar og eitt helsta hreyfiafl samfélaga og velsældar mannkyns. Á tímum fádæma umskipta, óvissu og örra tæknibyltinga verða þjóðir heims að búa sig undir aukinn breytileika og sífellt flóknari áskoranir. Framtíðarhorfur íslensku þjóðarinnar velta á samkeppnishæfni og sjálfbærni íslenska menntakerfisins. Velgengni byggir á vel menntuðum einstaklingum með skapandi og gagnrýna hugsun, félagsfærni og góð tök á íslensku og erlendum tungumálum til að takast á við hnattrænar áskoranir.“

Aðgerðaráætlun 2024 – 2027 hefur reyndar ekki litið dagsins ljós á vefsíðu ráðuneytis menntamála en í aðgerðaáætlun 2021 – 2024 segir að eitt markmiða sé að leik- grunn- og framhaldsskólar verði mannaðir kennurum með leyfisbréf til að tryggja gæði náms og kennslu og mæta þörfum samfélagsins. Þar segir einnig að framkvæmdaraðilar þessa markmiðs séu auk ráðuneytis menntamála, háskólarnir, Kennarasamband Íslands og rekstraraðilar skólanna, sem eru sveitarfélög og ríki.

Stjórnir margra sveitarfélaga eru samsettar af sjálfstæðis- og framsóknarfólki sem endurspeglast í samsetningu stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Síðustu daga virðist sem svo að samninganefnd sveitarfélaganna sé umboðslaus og meirihluti stjórnar SÍS virðist ætla að taka yfir samninga. Með því er umrædd stjórn þó að segja margt og miður gott. Það er vont þegar sveitarfélögin sem eru um leið vinnuveitendur kennara sameinast gegn eigin starfsfólki með viðlíka virðingarleysi og gjaldfella um leið umboð samninganefndar. Slíkt er ekki líklegt til árangurs eða trausts en hvoru tveggja er afskaplega mikilvægt.

Við þurfum þjóðarsátt um gott menntakerfi

Við sem viljum hafa öflugt opinbert menntakerfi erum stöðugt að berjast gegn þessum sterkum öflum sem með auðveldu aðgengi að fjölmiðlum og fjármagni róa leynt og ljóst að niðurbroti þess, mögulega til einkavæðingar. Við höfum vissulega stuðning rannsókna, reynslu og tölfræði annarra þjóða sem segir okkur að í góðu opinberu menntakerfi sem sniðið er að þörfum allra barna, þar sem jafnræði og réttlæti ríkir, fer fram öflug verðmætasköpun í formi mannauðs og leggur grunn að velsæld þjóðar.

Nú verðum við sem viljum menntakerfinu vel og um leið framtíðinni að láta í okkur heyra sem aldrei fyrr. Kalla sveitarstjórnarfólk og ríkisstjórn til ábyrgðar og ef það vill ekki standa með okkur að tryggja að þau fái ekki kosningu næst. Það verður að standa við gefin loforð og gerða samninga um leið og það þarf að gera sér grein fyrir því að gæða menntun á og má kosta. Það þarf þjóðarsátt um gott menntakerfi.

Höfundur er sérfræðingur í kennslu og stjórnun í leik-, grunn- og háskólum til 25 ára.




Skoðun

Sjá meira


×