Skoðun

Lýð­ræðið sigrar

Snorri Ásmundsson skrifar

Um leið og fjölmiðlar og aðrir átta sig á heilindum mínum í framboði til formanns Sjálfstæðisflokksins og sýna þá virðingu að stilla mér upp við hlið annarra frambjóðenda þá mun lýðræðið sigra. Það er merkilegt að vera skilinn svona útundan þrátt fyrir að Sjálfstæðisstefnan segi til um annað. Þetta er mjög áberandi og margir hafa haft samband við mig og hneykslast og allir sammála um að við séum að verða vitni af sýndarlýðræði í sinni verstu mynd.

Við getum hneykslast á lýðræði annarra landa eins og í Rússlandi og í Bandaríkjunum, en lýðræði okkar er ekki til fyrirmyndar og fjölmiðlar mega taka það til sín og ættu að skammast sín. Fjölmiðlar eiga sínar risaeðlur sem eru oftast ferkantaðir úr sér gengnir besservissar og of oft fengnir sem álitsgjafar í ýmsum umræðum sem taka umræður oft á svo kjánalegt plan.

Ef Ísland og Sjálfstæðisflokkurinn hefur einhvern tímann haft þörf á mér og mínu innleggi er það einmitt núna. En það er óttinn sem fær okkur til að dæma og eins og ein vinkona mín sem er vel innmúruð í Sjálfstæðisflokknum sagði við mig einu sinni” Snorri það eru allir hræddir við þig” ég spurði hana þá hvernig í ósköpunum stæði á því og þá svaraði hún” því þú ert ekki í neinu liði. Ég held hún hafi margt til síns máls og hef oft fundist fólk ekki skilja mig og ályktað út í bláinn. En ég er svo sem ekki saklaus og viðurkenni að ég hef ekki gert mikið í að leiðrétta misskilning fólks enda ekki fundist það í mínum verkahring, en ég hef mjög áreiðanlegar heimildir fyrir því að ég sigri formanns kosningarnar um næstu helgi. Ég get því miður ekki upplýst hvaðan þær heimildir koma. Sigurinn verður óvæntur fyrir suma og hann verður afgerandi. Sá hlær mest og best sem síðast hlær.




Skoðun

Sjá meira


×