Skoðun

Hvatning til heil­brigðis­ráðherra

Halla Þorvaldsdóttir skrifar

Krabbameinsfélagið hvetur heilbrigðisráðherra til að lækka gjald, sem konur í eftirliti vegna aukinnar áhættu á brjóstakrabbameinum þurfa að greiða fyrir röntgenmyndatöku af brjóstum, til jafns við gjald fyrir brjóstaskimun.

Brjóstaskimun sem býðst öllum konum á Íslandi á aldrinum 40 – 74 ára felst í röntgenmyndatöku. Með röntgenmyndatöku af brjóstum er mögulegt að greina brjóstakrabbamein áður en þau valda einkennum. Það eykur batahorfur og getur lækkað dánartíðni af völdum brjóstakrabbameina meðal kvenna sem eru skimaðar reglulega um 40%. Markmiðið er að þátttaka kvenna sé ekki undir 75%. Til að jafna aðgengi kvenna að skimuninni var gjald fyrir hana lækkað úr rúmlega 6.000 krónum niður í 500 krónur í október síðastliðnum. Rannsóknirnar geta bjargað mannslífum.

Sami tilgangur – tveir hópar – ólíkt gjald

Sams konar myndatökur, gerðar á sama stað, með sömu tækjum og af sama starfsfólki, eru líka nýttar í skipulögðu eftirliti sem býðst konum sem eru í aukinni áhættu fyrir brjóstakrabbameini, til dæmis vegna stökkbreytinga í BRCA-geni. Eftirlitið sem býðst þessum hlutfallslega litla hópi felst meðal annars í röntgenmyndum af brjóstum einu sinni á ári. Konurnar þurfa að greiða um 12.000 krónur fyrir myndatökuna. Það getur sannarlega verið hindrun fyrir þátttöku.

Rannsóknin er sú sama hvort sem um er að ræða lýðgrundaða skimun eða eftirlit með konum í aukinni áhættu, röntgenmyndataka af brjóstum. Tilgangurinn er líka sá sami, að greina brjóstakrabbamein snemma, sem getur bjargað mannslífum.

Meðal markmiða Krabbameinsfélagsins er að lækka dánartíðni af völdum krabbameina. Að greina krabbamein snemma er einn liður í því.

Krabbameinsfélagið tekur undir með Brakkasamtökunum og hvetur heilbrigðisráðherra til að láta tilganginn helga meðalið og jafna gjald beggja hópa fyrir sömu rannsókn.

Kostnaður má ekki koma í veg fyrir þátttöku, því lífið liggur við.

Höfundur er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.




Skoðun

Sjá meira


×