Innlent

Mikil­vægt að nýr for­maður hafi breiða skír­skotun

Magnús Jochum Pálsson og Lovísa Arnardóttir skrifa
Diljá Mist telur enga ástæðu til að fresta landsfundi.
Diljá Mist telur enga ástæðu til að fresta landsfundi. Vísir/Vilhelm

Diljá Mist Einarsdóttir þingkona Sjálfstæðisflokksins segir það mikilvægt að nýr formaður, sama hver hann verður, hafi breiða skírskotun og skilji viðfangsefni og vandamál venjulegs fólks.

Diljá Mist og Sigurður Már Jónsson, fyrrverandi aðstoðarmaður þingflokks Miðflokksins, ræddu við Kristján Kristjánsson í Sprengisandi um brotthvarf Bjarna Benediktssonar úr formannsstóli Sjálfstæðisflokksins og landsfund flokksins sem hefur verið deilt um. Sigurður Már sagðist telja líklegt að Sjálfstæðismenn reyni nú að hverfa aftur til sinna gömlu gilda.

„Þetta eru mikil tíðindi og verður mikill sjónarsviptir. Hann hefur sett gríðarlegt mark á stjórnmálin og verið hugðarefni margra á þessum tíma. Þeir þurfa að finna sér eitthvað annað við að vera, þónokkuð margir, þegar þeir þurfa að hætta að hugsa um hann,“ sagði Diljá um Bjarna Benediktsson í þættinum.

Diljá telur söguna munu fara mjúkum höndum um Bjarna. Hann fari frá góðu búi en hafi tekið við formennsku á erfiðum tíma. Á sama tíma hafi margt breyst í íslenskum stjórnmálum og til dæmis flokkum á hægri væng stjórnmála fjölgað.

„Við erum spennt að velja okkur nýja forystu á komandi landsfundi sem verður vonandi allra fyrst,“ sagði Diljá. Það hafi legið lengi fyrir að fundurinn eigi að verða mánaðamótin febrúar-mars. Hún segist vonast til þess að það muni standa.

Mikil átök í ríkisstjórn

„Það má halda því til haga að ég var aðstoðarmaður þriggja ólíkra forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson var einn af þeim. Auðvitað þekkir maður ágætlega til þar,“ segir Sigurður Már og heldur áfram:

„Ég kem inn sem aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar 2013. Þá voru fjögur ár frá bankahruni og Íslendingar að ná vopnum sínum á ný. Sú ríkisstjórn hafði mjög sterkan meirihluta, gott samstarf á milli forystumannanna þar og ákveðin verkefni sem blöstu við. Það gæti að sumu leyti verið arfleifð Bjarna að hann var mestan hluta sinn ráðherratíma fjármálaráðherra og var einbeittur í því að reyna að halda fast utan um fjármálin. Það er sagt í fjármálaráðuneytinu „Ríkissjóður á fáa vini“ og það er alltaf sótt fast að. Það voru oft ansi mikil átök, ég man það vel.“

Sigurður Már segir aðkomu Bjarna að því að leiða ríkisstjórn hafa verið stutta þegar það gerðist, í bæði skiptin, en það sé til marks um þann pólitíska óróleika sem hafi myndast eftir bankahrun. Stjórnmálakerfið hafi á tímabilinu orðið nokkuð flókið, með marga flokka, en sé að einfaldast aftur núna. Það séu aðeins sex flokkar á þingi núna til dæmis.

Sjálfstæðismenn þurfi að fara aftur í ræturnar

Diljá segir Sjálfstæðisflokkinn þurfa að leita aftur í ræturnar. Fólk sé ekki endilega að hafna hægristefnunni, það hafi verið hægrisveifla á Íslandi og Evrópu. Sjálfstæðismenn þurfi að leita aftur í ræturnar. Hún segist hafa fundið sterkt fyrir þessu á til dæmis hverfisfundum í aðdraganda kosninga, auk ákalls um að hlustað væri betur á fólk.

Diljá segir það skipta miklu fyrir þessa þróun hversu há ríkisframlög til stjórnmálaflokka eru orðin. Stjórnmálaflokkar og meðlimir þeirra þurfi ekki, eins og áður, að leita til fólks og fyrirtækja eftir fjármagni og þannig hafi tengslin rofnað. Það hafi haft slæm áhrif á starf flokkanna.

Kristján bendir á að þessu hafi verið breytt vegna óæskilegra tengsla og kerfið hafi verið misnotað. Diljá segir að frá þeim tíma hafi verið gerðar jákvæðar breytingar er varða opið bókhald, fjárframlög og upphæðir. Það eigi ekki að hrófla við því heldur snúist þetta um að stjórnmálaflokkar „eigi ekki að vera á ríkisspenanum“.

Sigurður Már segist trúa því að Sjálfstæðismenn fari aftur í kjarna sinn og gömul gildi. Sjálfstæðismenn séu vanir því að fá um þriðjung atkvæða í kosningu og það eigi kannski við á sveitarstjórnarstigi enn. Hann segir þó alltaf ólíkar skoðanir hafa rúmast innan flokksins en í seinni tíð hafi þessi ólíku skoðanaskipti valdið klofningu. Sjálfstæðisflokkurinn sé því í dag aðeins um 20 til 25 prósenta flokkur.

Breið skírskotun

Hann segir óljóst hver taki við forystu en það sé kosningabarátta fram undan.

Diljá segir mikilvægt að þegar Sjálfstæðismenn velji sér nýja forystu á landsfundi sé mikilvægt að hún hafi breiða skírskotun, tengsl við almenning og fólk sem skilji viðfangsefni, áskoranir og vandamál venjulegs fólks. Það sé verkefnið fram undan.

Diljá segir það ekki endilega bundið við aldursbil og vill ekki taka undir til dæmis orð Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur um að það þurfi kynslóðaskipti í forystu flokksins.

„Mér finnst það skipta mestu máli að þeir sem veljast til forystu hafi einhverja reynslu og þekkingu fram að færa sem muni nýtast þeim í starfinu, og ég tel ekki að það sé bundið við eitthvað aldursbil, enda höfum við í Sjálfstæðisflokki ekki verið að hengja okkur í aldur eða kyn eða þess háttar þegar við höfum verið að velja okkur fólk.“

Þórdís ekki góður kostur eigi að sækja fólk 

Sigurður segist ekki viss um hvaða veruleiki bíður nýs formanns. Þeir einstaklingar sem hafi verið nefndir séu ólíkir en það skipti miklu máli hver taki við. Hann segir Guðlaug Þór til dæmis með gott bakland og hafi náð góðri kosningu gegn Bjarna 2022 þegar hann fékk 40 prósent atkvæða. Þórdís Kolbrún sé kannski sísti kosturinn ætli flokkurinn að „fá fólk aftur heim“.

Diljá segir það lúxusvandamál hversu mikið er af góðu fólki í flokknum sem gæti valist til forystu.

„Það er gríðarlega mikilvægt að við veljum okkur forystu sem hægri fólk á Íslandi getur sameinast um. Til þess að koma aftur heim eða á nýjan áfangastað eins og fyrir ungt hægri fólk.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Diljá og Sigurð að ofan.


Tengdar fréttir

Sjálfstæðismenn orðnir eins og vinstrimenn

„Þetta er dálítið eins og með vinstrimennina sem gátu aldrei komið sér saman um nokkurn hlut,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður og samfélagsrýnir um þá stöðu sem komin er upp innan Sjálfstæðisflokksins.

Bjarni misst stuðning úr sínum kjarnahópi

„Að hann geri þetta akkúrat núna, gefur þeim kenningum byr undir báða vængi, að hann hafi verið búinn að missa einhvern úr sínum kjarnastuðningshópi. Það fólk sem staðið hefur þéttast að baki honum, með honum í gegnum þessa mörgu storma, hafi verið búið að missa trúna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×