Ísland verður nefnilega í efri styrkleikaflokki þegar dregið verið í umspil um sæti á næsta HM en þar munu 22 þjóðir keppa um ellefu laus sæti á næsta heimsmeistaramóti.
Íslensku stelpurnar losna þar með við það að spila við bestu þjóðirnar í Evrópu sem eru í efri styrkleikaflokknum með Íslandi.
Þessu náðu stelpurnar okkar með því að tryggja sér sextánda sætið á Evrópumótinu en liðið lauk keppni í gær. Stelpurnar komust ekki í milliriðil en sögulegi sigurinn á Úkraínu vóg þungt þegar upp var staðið.
Það eru því auknar líkur á því að íslenska liðinu takist að tryggja sér sæti á næsta heimsmeistaramóti sem fer fram í Þýskalandi og Hollandi frá 27. nóvember til 14. desember 2025.
Það mun koma í ljós sunnudaginn 15. desember næstkomandi hver mótherji íslenska liðsins verður en þá verður dregið í umspilið í Vínarborg.
Þetta verður í fyrsta sinn sem Ísland á sæti í efri styrkleikaflokki þegar dregið verður í umspilsleiki HM. Færeyingar eru í efri flokknum en þeir hreppa síðasta sætið af efstu ellefu. Færeysku stelpurnar enduðu í sautjánda sæti á EM sem var fyrsta stórmót þeirra frá upphafi.
Ísland er öruggt með að mæta ekki þeim þjóðum sem komust í milliriðlana á Evrópumótinu. Þær þjóðir sem voru næstar því að komast í efri styrkleikaflokkinn voru Norður-Makedónía, Króatía, Tyrkland, Serbía, Portúgal, Úkraína og Slóvakía en ein af þeim verður mögulega mótherji íslenska liðsins í vor. Ísrael, Kósóvó, Litháen og Ítalía eru hinar þjóðirnar sem íslenska liðið getur mætt.
Íslenska liðið var með á síðasta heimsmeistaramóti í fyrra, þær voru svo með á Evrópumótinu í ár og gæti því farið inn á sitt þriðja stórmót í röð klári stelpurnar þessa mikilvægu umspilsleiki.