Valur Páll Eiríksson skrifar frá Innsbruck
Það var létt yfir íslenska hópnum þegar hann æfði í keppnishöllinni í hádeginu í gær. Örlítill munur var á aðstæðum frá því deginum áður. Þá æfðu þær í næsta húsi í krúttlegum íþróttasal sem minnti helst á litla salinn í Gróttuheimilinu.
Þetta er stórt, að liðið sé komið á þetta svið. Landsliðskonurnar hafa talað um heimsmeistaramótið í fyrra eins og ákveðinn bónus, enda vann Ísland sér ekki inn keppnisrétt þar heldur fékk úthlutað svokölluðu wild card sæti.
Verkefni dagsins er ærið, gegn hollensku liði sem varð heimsmeistari fyrir fimm árum. Óhætt er að segja að liðið sé meðal þeirra fimm bestu í heimi en það hafnaði í fimmta sæti á bæði HM í fyrra og Ólympíuleikunum í París í sumar.
Það skal ekki undra að Berglind Þorsteinsdóttir segi: „Úff, þetta verður erfitt,“ í viðtali fyrir leik.
Munurinn á mótinu sem hefst í dag og því fyrir ári síðan er hins vegar sá að stelpurnar okkar unnu sér inn réttinn til að vera hér í gegnum undankeppni. Þær eiga heima á þessu sviði og þær sýndu það með frábærri, þó kaflaskiptri, frammistöðu þegar þær stigu (flestar) í fyrsta skipti á stóra sviðið í fyrra.
Þar reyndu stelpurnar sig gegn öðru toppliði, Frakklandi, þar sem íslenska liðið mætti hreinlega ekki til leiks og var lent 7-0 undir snemma. Þeim óx þó ásmegin þegar leið á stóðust að endingu frönskukúrsinn þrátt fyrir tap.
Mörk Frakka í byrjun þess leiks voru meira og minna úr hröðum upphlaupum og ef marka má landsliðsþjálfarann Arnar Pétursson má búast við Hollendingum sem keyra hraðann upp einnig.
Reynslan af Frakkaleiknum þarf því að telja í dag og ljóst að ekki er í boði að mæta á hælunum til leiks. Stelpunum er tíðrætt um lærdóminn sem þær hafi dregið frá mótinu í Noregi og nú er að sýna það.
Þær unnu sér inn sæti hér, þær eiga heima hér og ég hlakka til að sjá sönnun þess í verki síðar í dag.
Ísland og Holland mætast klukkan 17:00 í dag. Leiknum verður lýst beint á Vísi.