Erlent

Kostnaðurinn við krýningu Karls konungs 13 milljarðar króna

Atli Ísleifsson skrifar
Karl III var krýndur konungur á sérstakri krýningarhátíð í Westminster Abbey í maí 2023.
Karl III var krýndur konungur á sérstakri krýningarhátíð í Westminster Abbey í maí 2023. EPA

Kostnaður breska ríkisins við krýningu Karls III Bretakonungs á síðasta ári var 72 milljónir punda hið minnsta, eða tæpir þrettán milljarðar íslenskra króna.

Þetta kemur fram í gögnum frá ráðuneytum menningarmála og innanríkismála sem birt voru í gær. Þar segir að kostnaðurinn sem féll á menningarmálaráðuneytið vegna krýningarinnar hafi numið 50 milljónum punda, en innanríkisráðuneytisins vegna löggæslu henni tengdri tæpum 22 milljónum punda.

Í greinargerð menningarmálaráðuneytisins segir að vel hafi tekist til við viðburði krýningarhelgarinnar sem margar milljónir manna hafi notið, bæði í Bretlandi og um allan heim.

Karl III var krýndur konungur á sérstakri krýningarhátíð í Westminster Abbey í maí 2023 og komu þar saman ýmsir þjóðarleiðtogar og önnur fyrirmenni. Móðir Karls, Elísabet II drottning, lést í september 2022, 96 ára að aldri.

Í breskum fjölmiðlum að lokareikningur breska ríkisins vegna krýningarinnar liggi þó enn ekki fyrir, en að talið sé að hann sé á annað hundrað milljónir breskra punda.

Deildar meiningar eru um að hve miklu leyti breskur almenningur eigi að standa straum af viðburðum sem tengjast konungsfjölskyldunni. Skoðanakönnun YouGov sem gerð var í kringum krýninguna benti þannig til að rúmur helmingur Breta væru á þeirri skoðun að breska ríkið ætti ekki að fjármagna viðburðinn.

Í greinargerð breska menningarmálaráðuneytisins segir hins vegar að krýningarhátíðin hafi „veitt einstakt tækifæri til að fagna og styrkja þjóðarvitundina og varpa kastljósi heimsins að Bretlandi“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×