Bandaríkjastjórn og Biden hafa staðið þétt við bakið á ísraelskum stjórnvöldum frá því að Hamas-samtökin gerðu árás sína á Ísrael 7. október í fyrra. Bókin „Stríð“ eftir Bob Woodward, annan blaðamannanna sem eignaður er heiður af því að upplýsa um Watergate-hneyksli Richards Nixon, varpar ljósi á hvernig Biden hefur þó á köflum rifist við Netanjahú um framferði Ísraelshers á Gasaströndinni á bak við tjöldin.
„Hver er hernaðaráætlunin, maður?“ spurði Biden þegar hann ræddi við Benjamín Netanjahú í síma í apríl samkvæmt Woodward.
„Við verðum að fara inn í Rafah,“ svaraði Netanjahú sem er gjarnan kallaður Bibi.
„Bibi, þú ert ekki með neina hernaðaráætlun,“ setti Biden ofan í við forsætisráðherrann.
„Bibi, hver andskotinn?“
Þegar Ísraelsher réðst svo inn í Rafah var Biden nóg boðið. „Hann er helvítis lygari,“ sagði Biden við ráðgjafa sína.
„Þessi tíkarsonur, Bibi Netanjahú, hann er slæmur gaur. Hann er slæmur helvítis gaur!“ sagði Biden um Netanjahú eftir að átökin á milli Ísraela og Hamas stigmögnuðust í vor.
Leiðtogarnir tveir ræddust við í síma eftir að loftárás Ísraela felldi einn helsta herforingja Hezbollah-samtakanna og þrjá óbreytta borgara í júlí.
„Bibi, hver andskotinn?“ er Biden sagður hafa öskrað á Netanjahú.
Varaði hann forsætisráðherrann við því að heimsbyggðin liti í vaxandi mæli á Ísrael sem útlagaríki. Netanjahú svaraði að skotmark árásarinnar hefði verið „einn helsti hryðjuverkamaðurinn“.
„Við sáum tækifæri og við gripum það. Því harðari árásir sem þú gerir, þeim mun árangursríkari verða samningaviðræðurnar,“ sagði hann við Biden.

Sagði Netanjahú að sitja á strák sínum
Á stundum reyndi Biden að halda aftur af Ísraelum þegar þeir vildu ganga enn lengra í hernaðaraðgerðum sínum. Þegar Netanjahú hugði á hefndir gegn Írönum eftir að þeir skutu fleiri en hundrað flugskeytum á Ísrael til þess að svara fyrir dráp Ísraela á háttsettum herforingja í Sýrlandi sagði Biden honum að „taka sigrinum“.
„Þú þarft ekki að gera meira. Ekki gera neitt,“ sagði Biden við Netanjahú sem maldraði í móinn.
Ísraelar gerðu engu að síður afmarkaða árás á Íran en Biden taldi það sigur að þeir hefðu ekki gengið enn lengra.
„Ég veit að hann er að fara að gera eitthvað en ég takmarka það með því að segja honum að „gera ekkert“,“ sagði Biden við ráðgjafa sína.