Upp­gjörið: FH - Fram 27-23 | Hefja titil­vörnina á sigri

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson og félagar byrja nýtt tímabil á heimavelli sínum.
Aron Pálmarsson og félagar byrja nýtt tímabil á heimavelli sínum. Vísir/Diego

FH bar sigur úr býtum gegn Fram þegar liðin mættust í 1. umferð Olís-deildar karla í handknattleik í kvöld. Lokatölur 27-23 og FH hefur því titilvörnina þetta tímabilið á sigri.

Liðin skiptust á að skora í upphafi en FH komst í 6-3 eftir tíu mínútna leik og síðan í 9-5 skömmu síðar. Framarar fóru illa með færin sín í sókninni og þá var Daníel Freyr Andrésson frábær í marki FH í fyrri hálfleiknum og varði hvert skotið á fætur öðru.

Það munaði um fyrir Framara að þeirra besti leikmaður Rúnar Kárason var engan veginn að finna sig og var mistækur í sínum aðgerðum.

Eftir leikhlé Einars Jónssonar í stöðunni 9-5 skoruðu Framarar tvö mörk í röð en FH svaraði strax og komust í 14-8. Ásbjörn Friðriksson fór á kostum á þeim kafla, skoraði fimm mörk í röð og steig vel upp þegar Aron Pálmarsson settist á bekkinn.

Staðan í hálfleik var 14-10 fyrir FH eftir að Fram hafði skorað síðustu tvö mörk fyrri hálfleiks.

FH hélt frumkvæðinu í upphafi síðari hálfleiks en í stöðunni 21-16 náðu Framarar góðum kafla og minnkuðu muninn í 22-21. Vörn Framara var góð á þessum kafla og Arnór Máni Daðason í markinu átti góðar vörslur.

En þegar á þarf að halda er gott að eiga Aron Pálmarsson. Hann steig vel upp seinni hluta hálfleiksins og dór FH-inga að landi. Framarar fóru stundum illa að ráði sínu og fengu ódýrar brottvísanir og FH sigldi sigrinum nokkuð þægilega í höfn.

Lokatölur 27-23 og titilvörn FH í Olís-deildinni hefst því á góðum heimasigri.

Atvik leiksins

Aron Pálmarsson kláraði leikinn með tveimur síðustu mörkunum. Framarar fengu tækifæri til að minnka muninn í eitt mark þegar um þrjár mínútur voru eftir en fóru illa að ráði sínu. Aron tók af skarið og kláraði leikinn fyrir Íslandsmeistarana. Ekki í fyrsta sinn og eflaust ekki það síðasta.

Stjörnur og skúrkar

Aron var gulls ígildi fyrir FH þegar á þurfti að halda. Daníel Freyr var frábær í marki FH í fyrri hálfleik og hélt dampi ágætlega í þeim síðari. Ásbjörn Friðriksson skoraði fimm mörk undir lok fyrri hálfleiks og sýndi að hann er ennþá lykilmaður í FH-liðinu.

Reynir Stefánsson var bestur í liði Fram ásamt Arnóri Daða í markinu en reynsluboltanir Rúnar Kárason og Þorsteinn Gauti Hjálmarsson áttu ekki gott kvöld. Þeir skoruðu fjögur mörk úr sautján skotum og Framarar mega ekki við slíkri hauskúpuframmistöðu.

Dómararnir

Þeir Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson dæmdu leikinn af stakri prýði. Höfðu góð tök allan tímann og koma vel undan sumri. Sigurður Hjörtur hefur verið að dæma í Bestu deildinni í knattspyrnu í sumar en virðist ekki eiga í neinum vandræðum með að skipta yfir í harpixið.

Stemmning og umgjörð

Það var ágætis mæting hjá FH í kvöld en 10-15 mínútum fyrir  leik voru ekki margir komnir í hús. Sigursteinn Arndal minntist á þetta í viðtali eftir leik og vill að FH-ingar rifji upp stemmninguna frá því í úrslitakeppninni í vor.

Umgjörðin hjá FH var með ágætum. Þeir skelltu í grill fyrir stuðningsmennina og eftir leik voru leikmenn mættir í hamborgaraveisluna og horfðu á leik Hauka og Aftureldingar ásamt stuðningsmönnum. Allir léttir, ljúfir og kátir.

„Það þurfti heimsklassa handboltamann til að klára þennan leik fyrir FH“

„Við erum sjálfum okkur verstir að mínu mati. Fyrri hálfleikur var ekki góður þannig séð en við erum samt að skapa okkur fullt af færum. Danni er með 50% markvörslu og margt af því dauðafæri. Ég held að þar liggi munurinn á liðunum í fyrri hálfleik,“ sagði Einar Jónsson þjálfari Fram eftir tapið gegn FH í Olís-deildinni í kvöld.

Framarar voru alltaf að elta FH-inga í kvöld en náðu að minnka muninn í eitt mark í síðari hálfleiknum. 

„Svo eru þeir klókari í seinni hálfleik. Við áttum að jafna þennan leik og fengum 2-3 augnablik sem við klúðrum sjálfir. Klúðrum hraðaupphlaupi og köstum boltanum frá okkur. Hárréttar brottvísanir og svona. Það er bara eitthvað sem við lifum með.

Einar Jónsson, þjálfari FramVísir/Hulda Margrét

Framarar spiluðu töluvert á ungum leikmönnum og Einar minntist á þeirra þátt.

„Þetta er á einhverjum tímapunkti spurning um skynsemi, við erum með mikið af ungum strákum sem eru að standa sig frábærlega. Margt mjög gott og margt sem við getum byggt á. Við þurfum að vera aðeins meira svalir. Við ræddum það í hálfleik þegar við vorum komnir með sautján skotklikk sem er auðvitað ekki gott.“

Varnarlega voru Framarar nokkuð góðir og þá sérstaklega í síðari hálfleiknum.

„Mér fannst við, fyrir utan allra fyrstu mínúturnar, spila virkilega vel varnarlega. Það þurfti heimsklassa handboltamann til að klára þennan leik fyrir FH. Hann hreinsaði leikinn fyrir þá og þeir, ég segi ekki heppnir, lánsamir að búa að svona leikmanni. Mér fannst við vera með þá í seinni hálfleik en það hjálpaði þeim að vera einum fleiri stundum. Mér fannst við klaufar sjálfir.“ 

„Ég er rosa ánægður með okkur, margt sem við getum byggt á. Auðvitað hefði ég viljað taka tvö stig en við eigum helling inni. Við erum langt á eftir FH, eigum eftir að spila okkur betur saman á meðan þeir eru með rútinerað lið. Við eigum eftir að ná þessum stað á einhverjum tímapunkti í vetur,“ sagði Einar Jónsson að lokum.°

„Við ýtum ekki bara á „play“ í vor“

„Var þetta ekki bara góð sjöa?,“ sagði Sigursteinn Arndal þjálfari FH aðspurður hvaða einkunn hann gæfi frammistöðu FH í sigrinum gegn Fram í kvöld

„Öll lið eru bara á þessum stað núna að vera að vinna með sinn leik. Nú er mótið byrjað og þú þarft að skila stigum líka. Þú ert að vinna með marga þætti, að skila stigum og að sama skapi að þróa leikinn,“ bætti Sigursteinn við þegar hann ræddi við blaðamann Vísis eftir leik.

FH náði frumkvæðinu í leiknum í fyrri hálfleik og þá var Daníel Andrésson frábær í markinu hjá Íslandsmeisturunum.

„Ég var ánægður með varnarleikinn stærstan hluta leiks og frammistaða Danna var góð, sérstaklega í fyrri hálfleik og svo á mikilvægum augnablikum í síðari hálfleiknum.“

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH.Vísir/Anton Brink

Tveir ungir leikmenn fengu eldskírn hjá FH í kvöld en þeir Garðar Ingi Sindrason og Ingvar Dagur Gunnarsson fengu báðir fullt af mínútum í leiknum í kvöld.

„Þetta eru strákar fæddir 2006 og 2007 og eru að koma inn og standa sig vel. Þeir þurfa að hafa báða fætur á jörðinni, halda áfram að hlusta og leggja sig alla í þetta. Þá er ég alveg viss um að okkur tekst að búa til góða leikmenn fyrir FH,“ en ungu strákarnir voru að einhverju leyti að fylla skarð Einars Braga Aðalsteinssonar sem hélt til Kristianstad í Svíþjóð eftir síðasta tímabil.

„Það vantar einhverja hjá okkur. Ólafur [Gústafsson] er frá og Leonharð [Þorgeir Harðarson] eru frá og við vinnum með það sem við höfum hverju sinni,“ en Sigursteinn sagði að hvorki Ólafur né Leonharð væru á leið til baka úr meiðslum á næstunni.

„Ég er mjög ánægður að þessir ungu strákar eru að taka stór skref. Það var ágætis mæting í kvöld en ég vil nota tækifærið og brýna fyrir FH-ingum að muna eftir stemmningunni eftir áramót í fyrra. Ég vil að fólk mæti strax, það eru ungir strákar að koma og þeir eiga skilinn stuðning. Ég vil bara biðja fólk um að hugsa til baka hvað það var gaman að mæta á handboltann. Þetta er miklu skemmtilegra með fullan kofa og við þurfum að koma okkur á þennan stað sem fyrst. Við ýtum ekki bara á „play“ í vor.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira