Um þessar mundir eru þrjátíu ár liðin frá stofnun samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, EES. Að því tilefni fengu utanríkisráðuneytið og Alþjóðastofnun Háskóla Íslands þau Enrico Letta, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu og höfund nýlegrar skýrslu um þróun innri markaðarins, og Line Eldring, formann EES-nefndar norskra stjórnvalda sem nýlega skilaði skýrslu um þróun og reynslu Noregs af EES samstarfinu, til að flytja erindi í Safnahúsinu um stöðu mála.

Íslendingar líta oft á sig sem smáþjóð í stóra samhenginu við aðrar þjóðir. Enrico Letta fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu orðaði þetta hins vegar mjög skemmtilega á fundi í Safnahúsinu í dag.

„Þetta er enginn brandari heldur raunveruleiki. Evrópuríki skiptast í tvo hópa. Smáríkin og ríkin sem gera sér ekki grein fyrir smæð sinni,“ segir Enrico Letta. Í samanburði við Kína, Indland og Bandaríkin væru öll ríki Evrópu lítil. Án samvinnu muni evrópuríkin ekki vaxa, glata störfum og verða undir í samkeppninni.
„Ég bendi á að við verðum að auka samvinnuna. Bæði innan Evrópusambandsins og við EES-ríkin Ísland, Noreg og Liechtenstein. Vegna þess að möguleikarnir á að auka samkeppnishæfni okkar eru til staðar. Við verðum bara að nýta þá,“ segir Letta.
Skiptir Ísland máli að Evrópu gangi vel
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra segir skipta miklu máli fyrir Íslendinga hvert Evrópusambandið stefni í vaxandi samkeppni í breyttum heimi. Hvaða áhrif það hafi á EES samninginn.

„Þá er það undir okkur komið að hafa á því skoðun. Ef við ætlum enga skoðun að hafa þá ákveða einhverjir aðrir fyrir okkur,“ segir Þórdís Kolbrún. Þetta væri áskorun fyrir Íslendinga í heimi þar sem gætti aukinnar verndarhyggju í viðskiptum. Sem ekki væri góð fyrir útflutningsdrifið land eins og Ísland sem treysti á stóra markaði.
Utanríkisráðherra segir skipta Íslendinga máli að Evrópu gangi vel.
„Mér finnst hún góð, þessi aukna áhersla á mikilvægi samkeppnishæfni. Að Evrópusambandið þurfi aðeins að stíga til baka og hugsa; hvar erum við núna í röðinni. Erum við með augun á réttum boltum,” segir Þórdís Kolbrún..
Letta segir mikilvægi Íslands og Noregs í evrópusamvinnunni hafi aukist frá undirritun EES samningsins fyrir þrjátíu árum.
„Og ég verði að bæta við; eftir Brexit. Brexit gaf Noregi og Íslandi stærra hlutverk. Við gerum okkur öll grein fyrir því og verðum að vinna saman,“ segir Enrico Letta.