Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi kom fram að á sama tíma og komum ferðamanna til landsins fjölgaði um sex prósent fyrstu fjóra mánuði ársins þá fækkaði gistinóttum um sex prósent. Jafnframt sagði Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, að bókanir á gististöðum fyrir sumarið væru tíu til fimmtán prósentum færri núna miðað við sama tíma í fyrra.

„Aðaláhyggjuefni okkar er að sjálfsögðu það að þetta er að fara í öfuga átt við það sem við viljum sjá þróunina. Við viljum ekki sjá fleiri og fleiri ferðamenn aftur, við vildum sjá meiri og meiri verðmæti af hverjum ferðamanni og að gistinætur hvers og dvalarlengd hvers ferðamanns lengist. Það er sameiginlegt markmið allra sem standa í þessu,” segir Jóhannes í hádegisfréttum Bylgjunnar.
Hann segir aukna landkynningu eina svarið við þessari öfugþróun.
„Samkeppnisríkin eru líka búin að taka sig verulega á í markaðssetningu, neytendamarkaðssetningu, sem við í rauninni höfum ekki verið að sinna síðan 2022 að neinu marki. Við stóðum okkur vel í faraldrinum en eftir það, þegar aðrir fóru af stað, þá hefur verið slökkt á fjármagni í það hér á landi.”

Hann segir þetta sameiginlegt verkefni ríkisins og ferðaþjónustufyrirtækja.
„Þetta er tvennskonar. Ríkið sér um „brand marketing” eða markaðssetninguna mörkun Íslands sem áfangastaðar. Að segja frá hvað Ísland er og að Ísland sé til og að það sé skynsamlegt að ferðast hingað.
Fyrirtækin hins vegar sinna síðan sölumarkaðssetningunni og leggja gríðarlegt fé í það. Hún skilar langmestum árangri ef að ríkið leggur til þessa áfangastaða markaðssetningu, sem að eiginlega öll lönd í kringum okkur eru að gera. Og að auka við um þessar mundir,” segir Jóhannes Þór Skúlason.
Hér var sagt frá verðlaunum Íslandsstofu fyrir öskurherferðina eftir covid-heimsfaraldurinn árið 2021:
Hér má sjá umfjöllun Íslands í dag árið 2010 um markaðsátakið sem farið var í eftir eldgosið í Eyjafjallajökli: