Lögin voru samþykkt með sex atkvæðum Repúblikana gegn þremur atkvæðum Demókrata en hæstaréttardómararnir eru alls níu. Tilgangur laganna er sagður vera að sporna gegn mikilli fjölgun innflytjenda sem koma til Bandaríkjanna í gegn um landamærin.
Joe Biden Bandaríkjaforseti auk dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna andmæltu lagafrumvarpinu, sem ber nafnið SB 4, en lögin áttu upphaflega að taka gildi 5. mars. Samkvæmt ráðuneytinu brjóta lögin í bága við bæði stjórnarskrá Bandaríkjanna og alríkislög að því leyti að þau stangast á við vald bandarískra stjórnvalda yfir innflytjendamálum.
Reuters hefur eftir Karine Jean-Pierre upplýsingafulltrúa Hvíta hússins að lögin komi til með að valda óreiðu og ringulreið á sunnanverðum landamærum Texas og Mexíkó.
Þá sagði Greg Abbott ríkisstjóri Texas að úrskurðurinn kæmi til með að stuðla að jákvæðri þróun í innflytjendamálum. Hann samþykkti frumvarpið í desember síðastliðnum. Þá sagði hann Biden ekki hafa framfylgt alríkislögum að refsivert sé að koma ólöglega inn í landið og því væri þörf á að lögin yrðu tekin í gildi.
Samkvæmt lögunum verður refsivert að koma inn í Texas-ríki ólöglega. Sé einstaklingur gripinn við að reyna að komast yfir landamærin getur hann átt fangelsisdóm yfir höfði sér. Ef einstaklingur neitar að yfirgefa landið getur hann átt yfir höfði sér tuttugu ár í fangelsi.
Sem áður segir verður lögreglu heimilt að handtaka hvern þann sem grunaður er um að hafa komið inn í ríkið með ólöglegum hætti.