Grímur segist lítið geta tjáð sig um málið að svo stöddu, en að frekari upplýsingar verði gefnar á morgun.
Fyrir liggur að nokkrir hafa verið handteknir í aðgerðum lögreglu, en Grímur segist ekki geta tjáð sig um hversu margir það eru.
Aðgerðirnar hafa meðal annars beinst að fyrirtækjum Davíðs Viðarssonar, líkt og Wok On, Pho Vietnam og Vy-þrifum. Aðgerðir lögreglu beindust líka að Herkastalanum í Kirkjustræti þar sem að gistihúsið Kastali Guesthouse er rekið.
Fjöldi stofnana hafa komið að rannsókn lögreglu, en í tilkynningu frá henni var meðal annars minnst á lögreglulið víða um land, embætti ríkislögreglustjóra, Tollgæsluna, Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, ASÍ, velferðarsvið Reykjavíkurborgar, barnaverndaryfirvöld í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins.
Aðgerðirnar hafa þegar haft afleiðingar. Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, greindi frá því í samtali við fréttastofu fyrr í kvöld að leigusamningi Krónunnar við Wok On hefði verið slitið.
Wok On rak þrjú útibú í verslunum Krónunnar, en veitingastöðunum var lokað í aðgerðum lögreglu í dag.