Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að Hafrannsóknastofnun hefur ekkert skip aflögu til að senda í loðnuleitina og þarf að treysta á útgerðina. Vísindamennirnir koma þó frá Hafrannsóknastofnun, þeirra á meðal leiðangursstjórinn; fiskifræðingurinn Birkir Bárðarson.
„Við ætluðum að fara með Árna Friðriksson í þetta verkefni en hann var í skoðun í slipp núna um daginn og það kom í ljós bilun. Þannig að hann getur ekki tekið þátt í verkefninu.“

-Og heldur ekki Bjarni Sæmundsson?
„Nei, Bjarni verður í öðru verkefni. Hann verður við umhverfismælingar,“ svarar Birkir en tekur fram að áhöfn Bjarna muni þó senda þær upplýsingar sem gætu gagnast.
Útgerðin leggur til grænlenska skipið Polar Ammassak, Ásgrím Halldórsson frá Skinney-Þinganesi á Hornafirði og Heimaey frá Ísfélaginu í Vestmannaeyjum.

„Útgerðin borgar tvö af þessum skipum og Hafrannsóknastofnun eitt. Og það verður bara að segjast að útgerðin hefur brugðist mjög vel við í samstarfinu um þetta. Þeir tóku virkan þátt í síðustu mælingu núna í janúar og mættu svo með tvö skip núna og stukku til og græjuðu Heimaey þegar Árni brást. Þannig að það er að koma sér mjög vel fyrir verkefnið,“ segir Birkir.
Vonin núna liggur í því að finna loðnu sem talin er hafa leynst undir hafísnum undan Vestfjörðum í janúarmælingunni.

„Við munum fara og taka svæðið út af Vestfjörðum, fyrir Norðurlandi og út af norðanverðum Vestfjörðum.“
Og það þarf ekki mikið að finnast til að hægt verði að veita ráðgjöf um að leyfa veiðar.
„Þegar við náðum utan um stofninn síðast, sem var síðasta haust, þá vorum við mjög nálægt því. Þannig að það er alveg ágæt von um að það náist.
En við þurfum alltaf bara að spyrja að leikslokum. Það er ómögulegt að segja núna hvað muni gerast í þessari mælingu núna,“ segir fiskifræðingurinn.

Það þykir þó borin von að búast við viðlíka loðnuævintýri eins og síðustu tvær loðnuvertíðar voru, með sextíu milljarða og fimmtíu milljarða króna útflutningsverðmæti. Verði veiðar á annað borð heimilar þarf þó ekki mikið magn til að flotinn gæti á skömmum tíma skilað tuttugu milljarða króna verðmæti. Það er því mikið í húfi.
Búist er við að niðurstöður loðnuleitarinnar liggi fyrir um miðjan febrúar. Þá verður væntanlega ljóst hvort það verður loðnuvertíð eða loðnubrestur í vetur. Framundan er langverðmætasti veiðitíminn, glugginn fram í miðjan mars.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: