Skoðun

Leik­skóla­mál Reykja­víkur­borgar

Hlynur Ólafsson skrifar

Leikskólamál Reykjavíkurborgar hafa verið í ólestri síðan ég hef þurft að koma börnunum mínum á leikskóla, og sjálfsagt töluvert lengur en svo. Með hverju barninu vex þessi kvíðatilfinning innra með manni þegar líða fer að lokum fæðingarorlofs og leikskólinn ætti að fara taka við. Eitt er sameiginlegt með öllum mínum börnum, og það er að Reykjavíkurborg hefur ekki staðið sig í stykkinu í að geta boðið þeim pláss á leikskóla þegar æskilegt væri að þeir tækju við keflinu ef svo má að orði komast, og vanrækja þar með eina af grunnskyldum sínum sem sveitarfélag. Í tíð þeirra sem hafa farið fyrir búsforráðum í Ráðhúsinu síðastliðin kjörtímabil virðist sem svo að biðlistar hafa eingöngu lengst, en þeir hampa engu að síður sjálfum sér í fjölmiðlum fyrir þann “árangur” sem náðst hefur í leikskólamálum og skreyta sig með stolnum fjöðrum þeirra sem réttilega eiga lof skilið í þessara að því er virðist vonlausu baráttu, sem eru starfsmenn leikskólanna. Aðgerðarplanið Brúum bilið er fjarri því að brúa bilið þar sem með allri þessari þéttingu byggðar þá er ekki pláss fyrir börn þeirra sem flytja í hverfin á leikskólum því þeir virðast ekki fjölga leikskólaplássum með auknum fólksfjölda. Byggðin þéttist, en leikskólanetið þynnist. Leikskólinn Hlíð lokaði í október 2022 vegna myglu og stendur hann ennþá lokaður vegna þessa hvimleiða og tíða vandamáls. Hvernig getur það staðist að það taki meira en 18 mánuði að laga það vandamál? Svo er það nýjasta útspil Reykjavíkurborgar að bjóða þeim sem eru með börn hjá dagforeldrum og hafa náð 18 mánaða aldri aukalegar greiðslur ef þau hafa ekki fengið inn á leikskóla (sem er nokkuð algengt). Hvað með okkur sem fá ekki inn hjá leikskóla né dagforeldrum? Við þurfum endalaust að vera að takmarka atvinnu, skóla, og frítíma á meðan er borgarstjórn er of upptekin við að klappa sér á bakið til að sjá vandamálið og gera eitthvað í því. Það er innileg von mín að Einar muni standa sig betur en Dagur hefur gert síðastliðin ár, þó svo að ég geti ekki verð mjög bjartsýnn á það.

Höfundur er faðir í Reykjavík. 




Skoðun

Sjá meira


×