Ný breiðfylking, með um 93 prósent félagsmanna Alþýðusambandsins, fundaði með Samtökum atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara í morgun í fyrsta sinn í þessari kjarasamningslotu. Markmið er að gera nýja langtímasamninga og hafa stéttarfélögin lýst því yfir að þau séu með hóflegar kröfur.
„Ég er mjög vongóð. Hér hefur teiknast upp mjög sterkt bandalag ólíkra félaga innan Alþýðusambandsins,“ segir Sólveig Anna jónsdóttir formaður Eflingar.
„Við ætlum að byggja á módeli lífskjarasamningsins, við ætlum að fara fram með kröfu um krónutöluhækkanir, við ætlum að krefjast þess að stjórnvöld axli ábyrgð gagnvart vinnandi fólki og komi að borðinu. Ef þetta gengur allt eftir, sem ég trúi að muni gera, getum við hratt og örugglega undirritað kjarasamninga á nýju ári.“
„Það þurfa allir að koma að þessu verkefni ef vel á að takast til. Ef við náum þeim árangri sem við stefnum að þá gæti þetta orðið sögulegur samningur. Það er kannski of snemmt að segja til um það á þessu stigi en við erum að hugsa stórt,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Reykjavíkurborg hefur tekið ákvörðun um að gjaldskrár borgarinnar sem snúa að barnafjölskyldum hækki ekki um meira en 3,5 prósent náist samningar. Sólveig Anna segist ekki hafa heyrt frá öðrum stjórnvöldum en kallar eftir því að önnur sveitarfélög og ríki fylgi í fótspor borgarinnar.
„Ég held að á þessum tímapunkti sjái allir hag sinn í því, sama hvað þeim finnst um hin ýmsu önnur mál, að koma hér saman og sameinast í þessu verkefni, að ná hratt og örugglega niður vöxtum og verðbólgu.“
Fundur hófst rétt fyrir klukkan tíu og lauk um ellefu. Boðað hefur verið til annars fundar 28. desember.
„Þetta var í raun mjög mikilvægur fundur þar sem við fundum mikla samstöðu meðal allra við borðið um að vinna að því verkefni að ná langtímakjarasamningum, sem geta minnkað verðbólgu og þar með stuðlað að því að vextir lækki,“ sagði Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.