Saksóknarar segja hinn 38 ára Joe Biggs hafa verið einn helsta hvatamann árásarinnar á þinghúsið þann 6. janúar 2021, en hann hafði áður verið sakfelldur fyrir að hafa hvatt til uppreisnar og fleiri brot í maí síðastliðinn.
Biggs er fyrrverandi hermaður og hafði einnig starfað sem fréttaritari hjá InfoWars, sjónvarpsstöðvar samsærasmiðsins Alex Jones.
Í réttarhöldunum baðst Biggs vægðar og sagðist sjá eftir gjörðum sínum. Dómari mat hæfilega refsingu sautján ára fangelsi, en saksóknarar höfðu farið fram á 33 ára dóm.
Annar liðsmaður Proud Boys, Zachary Rehl, var í gær dæmdur í fimmtán ára fangelsi fyrir hlut sinn í árásinni, eftir að hafa sömuleiðis verið sakfelldur fyrir að hvetja til uppreisnar. Rehl er leiðtogi deildar Proud Boys í Fíladelfíu og sást á myndböndum sprauta ertandi efni á lögreglumenn fyrir utan þinghúsið á meðan á árásinni stóð.
Í frétt BBC segir að um 1.100 manns hafi verið handteknir í tengslum við árásina á bandaríska þinghúsið í janúar 2021. 630 manns hafa játað þátt sinn í árásinni og hafa 110 enn sem komið er verið sakfelldir.
Stewart Rhodes, stofnandi öfgahópsins Oath Keepers, var í maí síðastliðnum dæmdur í átján ára fangelsi fyrir sinn hlut í árásinni.