Erlendir fjölmiðlar greina frá því að áttatíu slökkviliðsmenn hafi verið sendir á vettvang til að kljást við eldinn í bænum La Forge í norðausturhluta Frakklands, ekki langt frá þýsku landamærunum. Tilkynnt var um eldinn um klukkan 6:30 að staðartíma.
Talsmaður yfirvalda segir líkur á því að ellefu þeirra sem hafi dvalið á efri hæðum orlofsheimilisins séu mögulega látnir. Um var að ræða hóp fólks frá Nancy, sem einnig er að finna í austurhluta Frakklands.
Byggingin er á þremur hæðum, hlaða sem hafði verið breytt í orlofsheimili sem notað hefur verið af góðgerðarsamtökum sem styðja við bakið á fólki með námserfiðleika. Alls tókst að bjarga sautján manns úr byggingunni og var einn þeirra fluttur á sjúkrahús.
Ekki liggur fyrir um upptök eldsins.